Loðnuveiðar í Barentshafi leggjast að mestu af á næsta ári. Þetta varð ljóst þegar norsk-rússneska fiskveiðinefndin ákvað í lok síðustu viku að fara að ráðum Alþjóðahafrannsóknaráðsins og leyfa aðeins 15.000 tonna loðnukvóta á næsta ári.
Loðnukvótinn á yfirstandandi fiskveiðiári var 200.000 tonn þannig að niðurskurðurinn nemur nálægt 92%. Þetta er enn meiri skerðing sé miðað við árið 2012 en þá var loðnukvótinn 318.000 tonn.
Þótt loðnustofninn í Barentshafi í heild hafi í nýafstöðnum rannsóknaleiðangri mælst álíka stór og árið áður reyndist hrygningarstofninn hafa minnkað svo mikið milli ára, ekki síst vegna afráns þorsks, að ekki þótti stætt á að leyfa neinar veiðar að heitið gæti.