Barði NK kom til Neskaupstaðar í gærkvöldi með 1.150 tonn af makríl. Löndun hófst fljótlega en verið var að þrífa fiskiðjuverið eftir að vinnsla á 1.300 tonnum úr Beiti NK lauk. Sagt er frá þessu á heimasíðu Síldarvinnslunnar og rætt við Þorkel Pétursson skipstjóra á Barða NK.
„Veiðin gekk tiltölulega vel og samstarf skipanna fimm sem hafa samstarf um veiðarnar gengur hreint frábærlega. Við erum núna með tiltölulega góðan fisk og er meðalstærðin um 500 grömm. Það er mikil ferð á fiskinum þarna úti í Smugunni og ekki er óalgengt að fiskur sem finnst hverfi á einu augabragði. Makríllinn er brellinn og um þessar mundir nálgast hann leiðinlega mikið norsku línuna. Nú erum við langt komnir með kvótann og það er ánægjulegt. Veiðin hefur verið betri en í fyrra og því er eðlilega fagnað.“
Hvalur til vandræða
„Eitt vil ég nefna,“ bætir Þorkell við. „Og það er hvalurinn. Það er mjög mikið um hval á makrílmiðunum og hann veldur okkur bölvuðum vandræðum. Við höfum fengið hval í vörpuna og það er alveg djöfullegt. Gert er ráð fyrir að löndun ljúki hjá okkur um hádegi á morgun og um það leyti verður Margrét EA komin til Neskaupstaðar með 1.100 tonn en það var fínasta veiði í gær,” sagði Þorkell.