50 ár verða liðin í nóvember frá upphafi þriðja þorskastríðsins milli Íslendinga og Breta. Það hófst 15. nóvember 1975 og lauk með sáttasamningum sem undirritaðir voru í Ósló 1. júní 1976. Danska almannatengslafyrirtækið Pressecentrum í Esbjerg í Danmörku hefur af þessu tilefni framleitt hlaðvarpsþátt um þessa atburði.
Þorskstofn undir miklu veiðiálagi
Þriðja þorskastríðið er upplýsinga og afþreyingarhlaðvarp sem er ætlað að upplýsa, fræða og skemmta hlustendum. Gervigreind var mikið notuð við vinnslu þáttarins en ekki við efnisöflun og rannsóknir.
Í kynningu á þættinum segir að stríðið hafi ekki verið háð með sprengjum eða skriðdrekum heldur hafi það snúist um átök um fisk á köldu og stormasömu hafinu við Ísland.
„Á áttunda áratuginum var þorskur ein mikilvægasta fisktegundin í Norður-Atlantshafi. Öldum saman höfðu skip frá Bretlandi verið við veiðar við Ísland og borið að landi gríðarlegan afla til Bretlands. Íslendingar höfðu á sama tíma reitt sig á þessi sömu fiskimið til matvæla- og gjaldeyrisöflunar. Þorskstofninn var undir miklu veiðiálagi og Íslendingar vildu treysta framtíð veiðanna. Íslendingar sýndu mikið hugrekki í júlí 1975 þegar þeir færðu út fiskveiðilögsöguna í 200 sjómílur út frá ströndinni. Það þýddi að breskum togurum, sem þar höfðu stundað veiðar í marga mannsaldra, var nú óheimilt að stunda þar veiðar nema með leyfi Íslendinga. Bretar sættu sig ekki við þetta. Í nóvember 1975 sendu bresk stjórnvöld herskip breska sjóhersins til þess að verja breska togara. Íslenska landhelgisgæslan var að reka þá burt.“
Furðulegir bardagar
Í kynningunni segir að bardagarnir á hafi úti hafi verið furðulegir. Hvorki hafi verið notaðar byssur né tundurskeyti. Þess í stað hafi skipin siglt á hvert annað. Íslensku varðskipin hafi beitt togvíraklippum til að skera veiðarfærin aftan af bresku togurunum. Tjón hafi orðið á báða bóga. Um tíma hafi Ísland meira að segja slitið stjórnmálasambandi við Bretland. „Átökin snerust ekki einvörðungu um fisk heldur einnig um völd, stolt og afkomu. Íslensk stjórnvöld hótuðu því að segja sig úr Atlantshafsbandalaginu og loka varnarstöð Bandaríkjanna í Keflavík, sem gegndi mikilvægu hlutverki í Kalda stríðinu. Herbragðið gekk upp og Bretar samþykktu snemma árs 1976 að halda sig utan 200 sjómílna fiskveiðilögsögu Íslands. Niðurstaðan var skýr: Ísland vann. En fórnarkostnaðurinn var hár fyrir sjávarútvegsbæi í Bretlandi. Mörg störf töpuðust og heil samfélög um breyttust varanlega.“ Þáttinn má nálgast hér.