Allsérstætt mál er nú til umfjöllunar hjá vinnumáladómstól í Aberdeen í Skotlandi. Pólsk fiskverkakona hefur kært vinnuveitanda sinn, sjávarútvegsfyrirtækið Whitelink Seafoods í Fraserburgh, fyrir að banna sér að tala pólsku í vinnunni.
Konunni var sagt upp vinnunni í júní á síðasta ári en áður en það gerðist hafði ný regla tekið gildi í fyrirtækinu sem fól í sér að starfmönnum var bannað að tala önnur tungumál en ensku. Forstjóri fyrirtækisins sagði fyrir réttinum að þetta væri gert til að tryggja öryggi starfsfólksins ef eitthvað óvænt kæmi upp á.
Í fyrirtækinu starfa um 100 manns af ólíku þjóðerni, þeirra á meðal Lettar, Litháar, Pólverjar, Kínverjar og Búlgarar.
Hlé hefur verið gert á réttarhaldinu meðan beðið er eftir lykilvitnum í málinu.
Frá þessu er skýrt á vef FISHupdate.com.