Þýsk dýraverndarsamtök segja að barátta þeirra fyrir því að banna sölu á humri í stórmörkuðum í Þýskalandi hafi verið mjög árangursrík, að því er fram kemur í frétt á vef CBC í Kanada.
Samtökin, sem kenna sig við Albert Schweitzer, halda því fram að þeim hafi tekist að fá alla helstu stórmarkaðskeðjur í Þýskalandi til að hætta sölu á humri.
Samtökin segjast beita sér fyrir þessu banni þar sem humarinn sæti ekki góðri meðferð. Klærnar á lifandi humri séu bundnar saman, lifandi humar fái ekki fæðu svo mánuðum skipti þegar hann er fluttur og geymdur og loks sé hann soðinn lifandi sem sé mjög ómannúðleg leið til að aflífa dýr.
Humar er ein mikilvægasta sjávarafurð í Kanada. Árlega er fluttur út humar sem nemur um 123 milljörðum ISK. Markaðurinn í Þýskalandi er ekki mikilvægur en kanadískir humarframleiðendur hafa samt áhyggjur af þróuna mála þar. Talsmenn þeirra segja að gagnrýni þýsku dýraverndarsamatakanna sé ósanngjörn. Þeir kannist ekki við slæma meðferð á lifandi humri og segja að hann sé aflífaður á mannúðlegan hátt.