Sjávarútvegsráðherrar Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur undrituðu í dag í Stokkhólmi sameiginlega yfirlýsingu um bann við brottkosti á fiski í Skagerak. Yfirlýsingin er sögð merkur áfangi á þeirri braut að tryggja sjálfbæra nýtingu á sameiginlegri sjávarauðlind. Skagerak sé að vísu lítið hafsvæði en mikilvægt fyrir þá sem við það búa og sjómennina sem þar fiska.
Svo sem kunnugt er hafa sjómenn innan Evrópusambandsins hingað til verið skyldaðir til að fleygja öllum fiski sem þeir hafa ekki kvóta fyrir eða er of smár samkvæmt reglugerðum. Noregur kemur að stjórnun á nýtingu fiskistofna í Norðursjó og Skagerak ásamt Evrópusambandinu og hafa Norðmenn þrýst á ESB að stemma stigu við brottkasti á sameiginlegum fiskimiðum. Minna má á að Danmörk og Svíþjóð eru aðildarríki ESB en Noregur ekki.
Nú stendur yfir endurskoðun á hinni sameiginlegu fiskveiðistefnu ESB og þar er lögð áhersla á að setja reglur sem sporna við brottkasti.