Sjávarútvegsráðuneytið hefur að tillögu Hafrannsóknastofnunarinnar lagt bann við beinum lúðuveiðum með svokallaðri haukalóð. Bannið tekur gildi 1. janúar 2012. Lúðuveiðar eru ekki bundnar aflamarksstjórnun en mikill meirihluti aflans hefur að undanförnu verið tekinn á línu og afli á sóknareiningu í dragnót og botnvörpu farið hratt minnkandi. Reglugerðin bannar sérútbúna króka á línu til botnfiskveiða sem eru með legg að þvermáli 3-5 mm og 11-25 gr að þyngd. Ennfremur er bannað að nota króka með opnun frá krókoddi að legg á bilinu 15-28 mm, sjá skýringarmynd. Vísað er til þess að Hafrannsóknastofnunin hafi um langt árabil varað við beinni sókn í lúðu með haukalóð og hvatt ráðuneytið til að grípa til aðgerða í ljósi þess hve lúðustofninum hafi hrakað mikið. Starfshópur sem ráðherra skipaði í fyrrasumar komst að sömu niðurstöðu. Sjá nánar á vef sjávarútvegsráðuneytisins.