Vísindamenn við háskólann í Leeds á Bretlandi hafa áhyggjur af því að bann við brottkasti í fiskveiðum, sem nú er til umræðu innan Evrópusambandsins, kunni að hafa alvarleg áhrif á súlustofninn í Norðursjó.
Nú stendur yfir rannsókn á því að hve miklu leyti súlan treystir á fisk og fiskúrgang sem fleygt er í sjóinn sér og ungum sínum til lífsviðurværis.
Rannsóknin fer þannig fram að fest er GPS tæki á fuglapör með unga og upplýsingar um ferðir þeirra bornar saman við staðsetningu fiskiskipa í Norðursjó. Fyrirfram er talið að hluti súlnanna sé mjög háður því að komast í fiskbrottkast meðan annar hluti einbeiti sér meira að því að veiða sandsíli, makríl eða síld.
Vísindamennirnir benda á að miklar breytingar hafi orðið á lífríki Norðursjávar síðustu tvo áratugina sem haft hafi veruleg áhrif á fæðuframboð hjá næstum öllum sjófuglum. Jafnvel þótt stöðva þurfi brottkast til þess að vernda fiskistofnana sé nauðsynlegt að rannsaka hvað áhrif slíkt bann hefði á fuglana.