ff

Forsætisráðherra Víetnam hefur beðið viðskiptabanka í eigu ríkisins um að lækka vexti á lánum til fiskeldisstöðva og gefa þeim lengri frest til að greiða skuldir, að því er segir í frétt á fis.com. Bankarnir eru einnig hvattir til að halda áfram að lána til greinarinnar.

Þessi aðgerð er hugsuð til að hjálpa fiskeldisbændum sem glíma nú við sjúkdóma í eldisfiski, verðlækkun, minni eftirspurn og fjárskort.

Fram kemur í fréttinni að til að rækta 1.000 tonn af pangasius þurfi 1,15 milljónir dollara (140 milljónir ISK). Eldismenn geti ekki lagt þá fjárhæð út án þess að fá lán. Undanfarin ár hefur verð á pangasius verið lágt og bankarnir hafa því ekki verið viljugir að lána til greinarinnar.

Vinnslu- og útflutningsfyrirtæki á pangasius eiga einnig í erfiðleikum og hafa ekki getað staðið í skilum við eldisbændur. Á sama tíma eru vinnslufyrirtækin sökuð um að greiða bændum ósanngjarnt verð fyrir fiskinn. Verðlækkun og háir vextir hafa leitt til þess að framleiðslan á Mekong-svæðinu hefur minnkað um 20% milli ára.

Þessu til viðbótar hafa eldisbændur orðið að glíma við sýkingu í rækju. Rækjan drepst í stórum stíl af völdum sýkingarinnar.