Bandaríkjamenn eru þriðja stærsta fiskveiðiþjóð heims og veiða um 4,2 milljónir tonna af fiski á ári. Mest veidda tegundin er ufsi sem samsvarar um 31% af heildarveiði þjóðarinnar. Verðmætasta tegund Bandaríkjanna er krabbi.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um sjávarútveg í Norður-Ameríku sem Íslandsbanki gefur út og dreift er á sjávarútvegssýningunni í Brussel sem nú stendur yfir.
Kanadamenn veiða um 800.000 tonn árlega og eru níundi stærsti útflytjandi sjávarafurða í heimi. Mest er veitt af rækju og síld en verðmætasta tegund Kanada er humar. Fiskeldi í Kanada hefur farið ört vaxandi undanfarið. Eldi á laxi í Kanada er það fjórða stærsta á heimsvísu á eftir Noregi, Síle og Skotlandi.
Hægt er að nálgast skýrsluna um sjávarútveg í Norður-Ameríku á heimasíðu Íslandsbanka, HÉR