Fiskafli bandarískra skipa varð meiri á síðasta ári en nokkru sinni fyrr og aflaverðmæti  hið mesta sem um getur. Alls veiddust rúmlega 4,5 milljónir tonna að verðmæti jafnvirði 647 milljarða íslenskra króna. Þetta var 23% aukning í magni og 17% aukning í verðmætum.

Gróft sagt var afli Bandaríkjamanna á síðasta ári fjórum sinnum meiri en afli Íslendinga og aflaverðmætið sömuleiðis. Rétt er að hafa í huga í slíkum samanburði að Bandaríkjamenn eru þúsund sinnum fleiri en Íslendingar.

Hvorki meira né minna en 91% af þeim sjávarafurðum sem neytt er í Bandaríkjunum eru innflutt. Hluti af þessum fiski er reyndar veiddur af bandarískum skipum, fluttur til útlanda til vinnslu og svo fluttur inn á ný.

Stærsta fisklöndunarhöfnin í Bandaríkjunum er Dutch Harbour í Alaska en mestum verðmætum er landað í New Bedford í Massachusetts á austurströndinni, aðallega vegna skelfiskaflans.