Tískuveitingastaður í Kaliforníu, sem sektaður hefur verið fyrir að bera hvalkjöt á borð, hefur beðist opinberlega afsökunar á framferði sínu. Í yfirlýsingu veitingastaðarins segir að hann hafi brugðist skyldu sinni gagnvart tegundum sem eru í útrýmingarhættu.
Frá þessu er greint á vef CNN í Bandaríkjunum. Saksóknari sektaði Typhoon Restaurant Inc., móðurfyrirtæki Santa Monica's The Hump, fyrir ólöglega sölu á sjávardýrum. Hér er um vinsælan sushi-veitingastað að ræða. Tekið er fram að þótt hvalkjöt sé talið herramannsmatur í Japan og í nokkrum öðrum löndum sé sala þess með öllu ólögleg í Bandaríkjunum. Þeir sem gera slíkt eigi yfir höfði sér allt að eins árs fangelsi og sekt upp á 200 þúsund dollara að auki. (25 milljónir ísl.kr.).
Það var einn af framleiðendum heimildarmyndarinnar ”Cove”, mynd sem sýndi höfrungadráp Japana, sem heimsótti veitingstaðinn með falda myndavél og kom upp um verknaðinn. Sýni af réttunum leiddi í ljós að veitingastaðurinn hafði boðið upp á kjöt af sandreyði.