Strax frá næstu áramótum verða vottorð um rekjanleika nauðsynleg í útflutningi á þorski og fleiri sjávarafurðum til Bandaríkjanna, að því er fram kemur í tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu .
Nýjar reglur bandarískra yfirvalda um rekjanleika sjávarafurða taka gildi um næstu áramót. Þær fisktegundir sem krafist verður upplýsinga um eru m.a. þorskur, háfur og aðrar hákarlategundir, sæbjúga og túnfiskur. Tímasetning á reglu um rekjanleika sæeyra og rækju hefur enn ekki verið auglýstur.
Listi yfir sjávardýrategundir sem eru á lista Bandaríkjanna: *Abalone, Atlantic Cod, Blue Crab (Atlantic), Dolphinfish (Mahi Mahi), Grouper, King Crab (red), Pacific Cod, Red Snapper, Sea Cucumber, Sharks, *Shrimp, Swordfish and Tunas (Albacore, Bigeye, Skipjack, Yellowfin, and Bluefin).
Innflytjendur sjávarafurða í Bandaríkjunum verða krafnir um gögn sem tryggja eiga að rekja megi afurðir sem undir reglurnar alla virðiskeðjuna, til baka til veiðiskips.
Reglur Bandaríkjanna fela ekki í sér sérstakar kröfur á stjórnvöld viðkomandi ríkja, en engu að síður verður á vef Fiskistofu hægt að sækja um sérstakt rekjanleikavottorð fyrir Bandaríkjamarkað sem rekja afurðir til löndunar veiðiskips.
Í viðbót við ofangreint rekjanleikavottorð Fiskistofu þurfa útflytjendur/innflytjendur að geta rakið afurðir sem í farminum eru til framleiðenda.
Kjósi útflytjendur að styðjast við önnur vottuð rekjanleikakerfi fyrirtækis frekar en rekjanleikavottorð Fiskistofu er þeim heimilt að gera það, en eru hvattir til að vera í sambandi við sína innflytjendur til að tryggja að viðkomandi rekjanleikakerfi uppfylli kröfur stjórnvalda í Bandaríkjunum.
Útflytjendur eru hvattir til að kynna sér þessar reglur og hafa samband við innflutningsaðila í Bandaríkjunum til að tryggja að réttar og fullnægjandi upplýsingar fylgi sendingum sjávarafurða frá Íslandi frá og með árslokum 2017.
Upplýsingar á vef bandarískra stjórnvalda má nálgast hér .
Fiskifréttir hafa áður skýrt frá hertum innflutningskröfum Bandaríkjanna , sem óljóst var hvaða áhrif myndu hafa hér á landi, sem og viðbrögðum norsku hafrannsóknarstofnunarinnar .