Nesfiskur hefur selt Baldvin Njálsson GK til rússneskrar útgerðar og hefur skipið þegar verið afhent. Nesfiskur er með nýjan Baldvin Njálsson, 66 metra langan skuttogara, í smíðum hjá skipasmíðastöðinni Armon í Vigo á Spáni. Útlit er fyrir að skipið verði afhent í nóvember næstkomandi og geti hugsanlega verið komið á veiðar í desember.
Bergur Þór Eggertsson, framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Nesfisks, segir söluna á eldri Baldvin Njálssyni hafa borið fremur brátt að og ákveðið hafi verið að taka tilboðinu sem barst frá Rússlandi. Hann segir söluverðið hafa verið ásættanlegt. Baldvin Njálsson eldri var líka smíðaður í Armon skipasmíðastöðinni á Spáni árið 1990. Á hann eru skráð 1.566 þorskígildstonn. Annað skip verður ekki fengið til þess að brúa bilið þar til nýsmíðin kemur til landsins heldur verður úthald annarra skipa Nesfisks aukið.
Rífandi gangur
„Það er rífandi gangur í nýsmíðinni úti á Spáni. Þeir ætla sér að afhenda skipið í nóvember og við treystum okkur ekki til að véfengja það því þetta gengur svo skart,“ segir Sævar Birgisson hjá Skipasýn sem hannaði nýjan Baldvin Njálsson.
Hann segir að þrátt fyrir strangar sóttvarnaaðgerðir hafi smíðinni undið fram nánast án hiks. Þetta sé vel af sér vikið því um er að ræða mjög flókna smíði. Allt bendi því til þess að nýr Baldvin Njálsson verði kominn á veiðar snemma á nýju kvótaári. Skipið kemur nánast fullbúið til veiða en þó þarf að setja í hann flökunarvél hér heima.
Sævar segir meginmunurinn á skipunum tveimur sé vöruhótel í tveimur lestum þar sem flokkaður fiskur fer frystur á bretti. Á millidekkinu verður flökunarvél og sjálfvirkur frystibúnaður sem er einkar mannaflssparandi tæknibúnaður. Lestin er á tveimur hæðum og samtals er rúmmál hennar 1.600 rúmmetrar.
„Það er hægt að tala um algjöra byltingu í vinnslunni. Vissulega eru komnir sjálfvirkir frystar í skip en flokkunin og pökkunin bætast þarna við sem sparar gríðarlegan sparnað í lönduninni. Fiskurinn er allur forflokkaður á brettum og það þarf ekki fjölda manns við flokkun á bryggjunni. Ætli Sólbergið og Iliveq séu ekki einu íslensku skipin með búnaði af þessu tagi,” segir Sævar.
Sparneytið skip
Skipið verður fyrir vikið einkar sparneytið. Sævar segir raunar að nýr Baldvin Njálsson verði í hópi sparneytnustu skipa í þessum flokki.
Sævar segir að stóra byltingin í þessu nýja skipi sé brettavæðingin. Þetta dregur úr öllu umstangi við löndun þar sem tegundaflokkun fer fram á bryggjunni. Fyrirkomulagið dregur því verulega úr kostnaði við landanir.