Stórútgerðin Havfisk í Noregi hefur samið um smíði á fjórða togaranum á skömmum tíma en á árunum 2013 og 2014 fékk fyrirtækið afhenta þrjá nýja togara eftir sömu teikningu, Gadus Poseidon, Gadus Njord og Gadus Neptun (Gadus merkir þorskur á latínu).

Togararnir eru allir hannaðir hjá Vard Design í Álasundi. Nýi togarinn er heldur stærri en hinir þrír eða 80 metra langur og 16 metra breiður (samanborið við 69,8 m x 15,6 m). Í honum verða aðskildar lestar fyrir frystan fisk og ferskan og afköst í frystingu verða 80 tonn á sólarhring. Skipið verður útbúið bæði til vinnslu á botnfiski og rækju og aflinn verður fullnýttur um borð.

Skrokkur skipsins verður smíðaður í Braila í Rúmeríu en skipið að öðru leyti byggt í Söviknes skipasmíðastöðinni í Noregi. Afhending er áætluð árið 2018. Smíðaverðið er 325 milljónir NOK eða jafnvirði 4,9 milljarða ISK.

Þess má geta að nýi togarinn kemur í stað minni togara sem hét Stamsund, en hann var seldur til Bolungarvíkur í vetur og heitir nú Sirrý ÍS.