Nýverið samþykkti bæjarstjórn Stykkishólms áskorun til Steingríms J. Sigfússonar atvinnuvegaráðherra um að auka síldarkvóta til netaveiða í Breiðafirði, að því er fram kemur á vef Landssambands smábátaeigenda.
Í ályktuninni segir að bæjarstjórn Stykkishólms fagni því að síldarkvóta hafi verið úthlutað til smábáta á síðasta ári og að kvótinn hafi verið aukinn í ár. Ekk sé þó nóg að gert. „Við teljum að öll rök séu fyrir að hagkvæmt og rétt sé að heimila síldveiðar smábáta í net í mun meira magni, en gert er.
Netaveiðarnar eru umhverfisvænar og koma sjómenn með gæða hráefni til vinnslu. Aflinn er unninn mjög ferskur og útgerðarmenn borga 13 krónur í veiðigjald til ríkisins af hverju kílói. Þegar fyrirkomulag veiða og vinnslu er með þessum hætti er verðmæta- og atvinnusköpunin eins og best verður á kosið.
Bæjarstjórn Stykkishólms skorar á Steingrím J. Sigfússon atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra að auka síldarkvóta til netaveiða á Breiðafirði,“ segir ennfremur í ályktuninni.