„Bæjarstjóra er falið að funda án tafar með helstu útgerðum og stoðgreinum í sveitarfélaginu, leggja mat á afleiðingar skattahækkunarinnar og skila samantekt sem nýtist við gerð næstu fjárhagsáætlunar,“ segir í yfirlýsingu bæjarráðs Fjarðabyggðar vegna hækkunar veiðigjalda.
Leggst sérstaklega þungt á fyrirtæki í Fjarðabyggð
„Bæjarráð Fjarðabyggðar harmar þá miklu hækkun veiðigjalda sem taka mun gildi um næstu áramót og lýsir yfir alvarlegum áhyggjum af áhrifum hennar á fjárfestingu, störf og tekjugrunn sveitarfélagsins. KPMG-greining fyrir Samtök sjávarútvegssveitarfélaga sýnir að hækkunin leggst sérstaklega þungt á fyrirtæki í Fjarðabyggð sem mun þannig skila sér í samdrætti í verðmætasköpun og útsvarstekjum. Bæjarráð tekur undir yfirlýsingu Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga um að gjaldtakan grafi undan byggðafestu og dragi úr fjárfestingum á svæðum sem reiða sig á sjávarútveg. Bæjarstjóra er falið að funda án tafar með helstu útgerðum og stoðgreinum í sveitarfélaginu, leggja mat á afleiðingar skattahækkunarinnar og skila samantekt sem nýtist við gerð næstu fjárhagsáætlunar,“ segir í yfirlýsingunni sem samþykkt var á fundi bæjarráðs í gær.