Frá stofnun AVS rannsóknasjóðsins árið 2003 hafa á sjötta hundruð styrkir verið veittir til rannsókna í sjávarútvegi og hefur sjóðurinn lagt tæpa tvo milljarða króna til þessara rannsóknaverkefna, að því er fram kemur á vef sjávarútvegsráðuneytisins.
Þar segir ennfremur að önnur eins fjárhæð og gott betur komi frá styrkþegum. Þannig megi segja að AVS hafi stuðlað að rannsóknum og þróun í íslenskum sjávarútvegi fyrir um fjóra milljarða króna sem ætla mætti að svari til ríflega 400 ársverka.
AVS (Aukið Virði Sjávarfangs)- rannsóknasjóður veitir styrki til rannsóknaverkefna sem auka verðmæti sjávarfangs. Styrkir eru veittir til verkefna sem taka á öllum þáttum sjávarútvegs og fiskeldis. Styrkir AVS rannsóknasjóðs eru fyrst og fremst til hagnýtra rannsókna og ætlaðir einstaklingum, fyrirtækjum, rannsókna-, þróunar- og háskólastofnunum.