Vestfirðir er sá landshluti þar sem aukning á löndunum botnfiskafla hefur orðið mest á árabilinu 2010-2012, samkvæmt samantekt sem birt er á vef Fiskistofu. Aukningin nemur 15% og má rekja til strandveiða en Vestfirðir tilheyra svæði A þar sem leyfilegur heildarafli á þeim veiðum var mestur.

Á Suðurlandi sem telur aðeins tvær löndunarhafnir, Vestmannaeyjar og Þorlákshöfn, var aukningin 12%, á Norðurlandi eystra sem nær frá Siglufirði austur til Bakkafjarðar var aukningin 11% og á Austurlandi um 10%. Samdráttur var á öðrum svæðum.

Á nýliðnu ári var Reykjavík sú höfn þar sem mestum botnfiskafla var landað eða tæpum 90 þúsund tonnum. Heldur hefur dregið úr lönduðu magni í Reykjavík, því árið 2010 var 104 þúsund tonnum landað þar. Þetta er 14% samdráttur á tveimur árum.

Sjá nánar á vef Fiskistofu.