Skoskur sjávarútvegur hefur tækifæri til þess að auka tekjur sínar um 45 milljónir punda á næsta ári (um 6,4 milljarða ISK), í kjölfar samkomulags ESB um fiskveiðikvóta á árinu 2017. Þetta kemur fram á vef SeafoodSource.

Samkomulagið felur í sér að kvóti er aukinn í 16 tegundum af 23 helstu tegundum nytjastofna sem eru í skoskri lögsögu, þar á meðal í þorski, ufsa og makríl. Þá gæti aukinn kvóti í leturhumri gefið 12 milljónir punda (1,7 milljarða ISK) og viðbót í skötusel um 5 milljónir punda (713 milljónir ISK).

Loks fá Bretar aukalega 1.500 tonn af þorski í Barentshafi í kjölfar samninga ESB og Noregs.