Frá því fiskveiðiárið 2019/2020 hefur ráðlagður þorskafli minnkað úr 272 þúsund tonnum í 213 þúsund tonn á yfirstandandi fiskveiðiári. Á þessu munar 22 prósent bendir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi á í pistli á vef samtakanna.

„Útgerðir aflamarksskipa og fiskvinnslur hafa þurft að mæta þessum niðurskurði. Á sama tíma og fyrirtæki sem rembast við að halda úti vinnu fyrir fólk allt árið og tryggja þar með byggðafestu og lífsafkomu fjölmargra fjölskyldna, hafa áhugamenn um strandveiðar ekki þurft að sæta slíkum takmörkunum,“ skrifar Heiðrún Lind og gagnrýnir áform nýrrar ríkisstjórnar um auknar strandveiðiheimildir harðlega.

Ósanngjarnt að meira fari til strandveiðimanna

„Strandveiðar hafa þrefaldast frá því kerfinu var komið á. Það er einstaklega óskynsamlegt og ósanngjarnt að strandveiðar fái sífellt stærri sneið af kökunni, ekki síst í því ljósi að veiðarnar eru að sögn nýs fjármálaráðherra „efnahagsleg sóun“ og skal þeirri skoðun ekki mótmælt hér,“ segir í pistli Heiðrúnar. Nú standi til að stórfjölga dögum til strandveiða og þar með bæta í þá efnahagslegu sóun sem fyrir sé.

„Ef litið er til reynslu liðins sumars þegar um 12.000 tonna strandveiði nægði um 750 bátum aðeins í 33 daga, þá má ætla að afli gæti aukist um 50 prósent tonn ef sömu bátar fá 48 daga. Og það má telja varlega áætlað þar sem líkur eru til þess að þeim bátum muni fjölga sem vilja skerf af höfðinglegri þjóðargjöfinni,“ skrifar Heiðrún sem spyr hvað þetta þýði fyrir ríkissjóð og efnahagslífið.

Milljarðar tapist í útflutningsverðmæti

„Gróflega má ætla að greitt veiðigjald af þorski lækki um tugi milljóna og útflutningsverðmæti verða einhverjum milljörðum minni. Það er mikilvægt að þessi verðmiði sé öllum ljós, enda hefur ekki mátt skynja umræðuna öðruvísi en að einhverjir telji að sjávarútvegur skili ekki nægum tekjum í ríkissjóð fyrir nýtingu á auðlindinni. Aukning strandveiða mun sannanlega hvorki svara því ákalli né stuðla að aukinni verðmætasköpun, sem mun vera markmið nýrrar ríkisstjórnar,“ segir framkvæmdastjóri SFS.

Þá segir Heiðrún strandveiðar í eðli sínu vera kapphlaup þeirra sem veiði um takmarkað magn af fiski.

Dýrari rekstur og fleiri slys

„Útgerðarkostnaður eykst, umgengni um auðlindina verður verri og slysum fjölgar, svo dæmi sé tekið. Reynsla af slíkum kerfum, hvort sem er á Íslandi eða annars staðar í heiminum, er ekki góð. Landaður afli verður alltaf meiri en ákveðið hefur verið þar sem engin stjórn er á fjölda báta og takmörkuð stjórn er á afla hvers þeirra. Af þessum sökum er rétt að gjalda mikinn varhug við strandveiðum og allri aukningu kvóta í þágu slíkra veiða,“ segir í pistli Heiðrúnar.

Ekkert hlutlægt svar þegar spurt sé um réttlát veiðigjöld

Meðal annarra atriða sem Heiðrún fjallar um er yfirlýst markmið ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur um mótun auðlindastefnu um sjálfbæra nýtingu og réttlát auðlindagjöld. Í stuttu máli segir framkvæmdastjórinn nýja ríkisstjórn í raun ekki þurfa að móta nýja auðlindastefnu um sjálfbæra nýtingu þegar komi að sjávarútvegi.

„Ríkisstjórnin hyggst einnig móta réttlát auðlindagjöld. Hugsanlega hefði verið betra fyrir ríkisstjórnina að nota eitthvað annað orð en „réttlát“ í þessu samhengi. Hver sem tekur sér það orð í munn getur lagt þann skilning í það sem viðkomandi kýs. Hvað er réttlátt auðlindagjald í sjávarútvegi? Við því er ekki til hlutlægt gilt svar,“ skrifar Heiðrún í pistinum sem lesa má í heild á vef Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.