Svo virðist sem innflutningsbann Rússa á norskar sjávarafurðir og stríðsástandið í Úkraínu hafi ekki haft þau neikvæðu áhrif á útflutning Norðmanna á uppsjávarfiski sem spáð hafði verið. Fyrstu tíu mánuði þessa árs jókst útflutningur á uppsjávarfiski um 16% að magni til miðað við sama tíma í fyrra. Verðmætin jukust á sama tíma um 10%.

Þetta kemur fram í nýjustu tölum Norska sjávarafurðaráðsins. Í heild nam útflutningur á uppsjávarfiski  á umræddu tímabili í ár 743.000 tonnum að verðmæti 5,7 milljarðar NOK eða jafnvirði 104 milljarða ISK. Verðmætaaukningin nam 9,5 milljörðum ISK.

Innflutningsbann Rússa kom harðast niður á síldarútflutningi Norðmanna til Rússlands en gengið hefur vel að finna aðra markaði. „Það að Færeyingar og Íslendingar hafa getað haldið áfram að selja til Rússlands hefur orðið til þess að opna Norðmönnum leið inn á minni markaði sem þessar þjóðir hafa venjulega sinnt,“ segir markaðsstjóri hjá Norska sjávarafurðaráðinu í samtali við Fiskeribladet/Fiskaren.

Fram kemur í máli hans að aukinn útflutningur Norðmanna á síld til Hvíta-Rússlands stafi af því að þar sé síldin í auknum mæli unninn og seld svo áfram til Rússlands.