Velta í viðskiptahagkerfinu, að undanskilinni lyfjaframleiðslu, fjármála- og vátryggingastarfsemi, var um 3.700 ma. kr. árið 2015 samanborið við 3.400 ma. kr. árið 2014 og hafði því hækkað um 6,8%. Eigið fé jókst um rúmlega 16% frá 2014 og var í lok árs 2015 um 2.600 ma. kr. Arðgreiðslur 2015 námu rúmlega 93 mö. kr. sem er tæplega 8 ma. kr. aukning frá fyrra ári. Þetta kemur fram í yfirliti Hagstofunnar um rekstur og efnahag fyrirtækja árið 2015.

Ef litið er til rekstrartekna í einstökum atvinnugreinum má nefna að rekstrartekjur sjávarútvegsfyrirtækja voru 364 ma. kr. (aukning um 4,1%), fyrirtækja í einkennandi greinum ferðaþjónustunnar 479 ma. kr. (13%) og rekstrartekjur í framleiðslu málma 247 ma. kr. (7%).

Arðgreiðslur í sjávarútvegi voru tæplega 15 ma. kr. og lækkuðu um 6,2 ma. kr. frá 2014.

Eigið fé í sjávarútvegi var um 254 ma. kr. og eiginfjárhlutfall um 40% í lok árs 2015. Hlutfall óefnislegra eigna af heildareignum í sjávarútvegi hefur verið nokkuð stöðugt síðustu árin, eða um 40%. Að stærstum hluta er þar um að ræða eignfærðar veiðiheimildir. Hagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta nam um 65 mö. kr. 2015 sem er 28% aukning frá árinu áður þegar hann var 51 ma. kr.

Velta sjávarútvegsfyrirtækja dróst saman frá 2002 til 2005 um 14,9% en frá 2005 til 2012 jókst veltan um 46,7% eða að meðaltali um 5,6% á ári. Síðan þá hefur velta í sjávarútvegi dregist saman um 6,2%.

Á árunum frá 2002 til 2005 jókst hlutdeild óefnislegra eigna af heildareignum í sjávarútvegi úr 20% í um 37%. Síðan þá hefur hlutfallið verið nokkuð stöðugt í kringum 40%. Um 72% af hækkun á heildareignum í sjávarútvegi á milli áranna 2001 og 2007 er vegna óefnislegra eigna eða 178 ma. kr. af 249 ma. kr. heildarhækkun.

Frá 2002 til 2015 hafa sjávarútvegsfyrirtæki skilað 697 mö. kr. í hagnað fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT), málmframleiðsla 253 mö. kr., smásöluverslun og ferðaþjónustan hvor um sig 190 mö. kr. Frá 2010 til 2015 er hagnaðurinn 382 ma. kr. fyrir sjávarútveg, 143 ma. kr. fyrir framleiðslu málma, 133 ma. kr. fyrir ferða- þjónustu og 74 ma. kr. fyrir smásölu.