Alls hafa 23 skip skráð sig til veiða á hrefnu við Noreg á þessu ári sem er fimm skipum fleira en í fyrra. Þetta er í fyrsta skipti í marga áratugi sem skipunum fjölgar.  Jafnframt þykir það jákvætt að ungir menn eru að hasla sér völl í þessari grein í ríkara mæli en áður.

Þegar hrefnuveiðarnar voru stöðvaðar árið 1987 og seinna þegar þær voru hafnar á ný árið 1992 voru í kringum 35 skip á þessum veiðum. Síðan fækkaði þeim jafnt og þétt og var talan komin niður í 17 fyrir tveimur árum, að því er fram kemur í Fiskeribladet/Fiskaren.

Ástæðan fyrir fækkuninni var minni arðsemi af veiðunum en áður vegna þess að sala á kjöti og spiki til Japans stöðvaðist og ekki náðist að endurvekja hana. Norskir hrefnuveiðimenn hafa því þurft að reiða sig eingöngu á heimamarkaðinn.

Á síðasta ári veiddust 588 hrefnur við Noreg samanborið við 465 dýr árið áður. Ekki þarf að kvarta undan því að útgefinn hrefnukvóti  hamli veiðum því leyfilegt er að veiða 1.200 dýr á ári.