Afli á skel- og krabbadýrum hefur reynst heldur meiri á yfirstandandi fiskveiðiári en því fyrra, að því er fram kemur á vef Fiskistofu.
Aukning er í flestum helstu tegundum og í heild nemur hún 414 tonnum sem er 3,7% aflaaukning. Í þessum flokki munar mest um humar og rækju. Fiskistofa vekur athygli á því að úthafsrækjuafli hafi þó dregist saman frá fyrra ári um rúm 570 tonn, eða um 9,2%, enda þótt veiðar á henni hafi verið gefnar frjálsar fyrir þetta fiskveiðiár. ,,Ekki er að sjá að sú breyting hafi haft áhrif á sókn í úthafsrækjuna, því skipin á veiðunum eru álíka mörg bæði árin og aflabrögð svipuð,“ segir á vef Fiskstofu.