Á árinu 2015 fiskuðu færeysk skip samtals 586 þúsund tonn á öllum miðum, þar af 259 þúsund tonn á heimamiðum. Þetta er um 43 þúsund tonnum meiri afli en árið áður. Frá þessu er greint á vef færeysku hagstofunnar.

Megnið af veiði Færeyinga 2015 var uppsjávarfiskur, eða 462 þúsund tonn. Þorskveiðin var 40 þúsund tonn og 28 þúsund tonn veiddust af ufsa. Kolmunni er helsta uppsjávartegundin en af honum veiddust 282 þúsund tonn, 107 þúsund tonn veiddust af makríl, 42 þúsund tonn af síld og 30 þúsund tonn af loðnu.