Á fyrsta tímabili fiskveiðiársins sem lauk 30. nóvember síðastliðinn var 230 tonnum af ýsu landað sem VS-afla, sem er veruleg aukning frá sama tímabili árið 2012 þegar landað var 150 tonnum,  samkvæmt því sem segir á vef Landsambands smábátaeigenda.

Lítill munur var aftur á móti á heildarafla allra tegunda til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins milli ára á fyrsta tímabili,  aflinn nú var 576 tonn en var 565 tonn á sama tímabili 2012.

VS-afli verður til þegar skipstjóri ákveður að hluti aflans, allt að 5% skuli ekki reiknast til aflamarks.  VS-aflatímabil hvers fiskveiðiárs eru fjögur og takmarkast við samanlagðan afla þriggja mánaða.  Ónýtt heimild hvers tímabils fellur niður, sem takmarkar mjög þessa sveigju í stjórnkerfi fiskveiða.

Landsamband smábátaeigenda hefur óskað eftir því við sjávarútvegsráðherra að tímabilaskipting VS-afla verði afnumin og prósenta verði hækkuð í 10% til að koma til móts við gríðarlegt magn af ýsu sem veiðist sem meðafli við þorskveiðar.