„Það er villandi og beinlínis röng framsetning á vef Fiskistofu, sem síðan er vitnað til í Fiskifréttum, þar sem gefið er í skyn að þátttaka í strandveiðum nú sé minni en áður,“ segir Örn Pálsson framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.
„Á vef Fiskistofu er sagt að 579 bátar séu með leyfi til strandveiða á yfirstandandi vertíð samanborið við 641 leyfi á síðustu vertíð. Tekið er fram að aldrei áður hafi verið gefin út færri leyfi til strandveiða. Hið rétta er að í maímánuði voru 547 bátar á strandveiðum samanborið við 446 báta í maí í fyrra. Sem sagt 101 báti fleira en í fyrra sem er 23% fjölgun milli ára. Þetta sýnir mikinn áhuga á veiðunum. Að bera saman útgefin leyfi nú snemma á veiðitímanum og útgefin leyfi á allri vertíðinni í fyrra er ekki réttur samanburður. Enginn veit hversu margir munu sækja um leyfi þegar upp er staðið,“ segir Örn í samtali við Fiskifréttir.