Könnun sem Norska sjávarafurðaráðið stóð að leiðir í ljós að 47% neytenda nefna hátt verð sem hindrun í vegi neyslu á sjávarafurðum. Könnunin leiðir ennfremur í ljós vaxandi áhuga neytenda á ódýrari hvítfiski en þorski, sem gæti falið í sér tækifæri til aukinnar markaðssetningar á ufsa.

Norska sjávarafurðaráðið er markaðsstofnun í eigu norska ríkisins sem vinnur í nánum tengslum við norskan sjávarútveg og hefur það hlutverk að hámarka virði norskra sjávarafurða á grónum mörkuðum sem og leita nýrra markaða.

Í umfjöllun um málið á heimasíðu Norska sjávarafurðaráðsins segir að á tímum sem neytendur finna fyrir hækkandi verðlagi sýni nýjustu tölur að neysla á þorski hafi dregist saman. Samkvæmt athugunum Kantar, sem er leiðandi markaðs- og greiningarfyrirtæki í Bretlandi, hefur neysla þorsks á heimilum þar dregist saman um allt að 18% á undanförnum árum.

Raunhæfur kostur til daglegrar neyslu

Samkvæmt gögnum neytendarannsóknastofnunarinnar SIFO hefur verð á matvöru hækkað tvisvar sinnum meira á undanförnum þremur árum en á annarri vöru. Marktækur samdráttur í neyslu þorsks, t.a.m. í Bretlandi, virðist vera vísbending um meðvitaðar fjárhagslegar ákvarðanir neytenda þegar kemur að kaupum á sjávarafurðum. Fyrir verðmiðaða neytendur getur hvítfiskur þó ennþá verið raunhæfur kostur, segir í umfjöllun Norska sjávarafurðaráðsins. Aðrar tegundir eins og ufsi bjóði upp á fjölhæfni hvað varðar matreiðslu og framreiðslu. Verð á ufsa geri hann að raunhæfum valkosti til daglegrar neyslu.

Próteinríkur matur eftirsóttari en áður

Þó verð skipti sífellt meira máli í vali neytenda á sjávarafurðum þá er eftirspurnin eftir próteinríkum matvælum sívaxandi. Þar fer kynslóðin fædd á árunum 1995-2012 fremst í flokki, svonefnd Z-kynslóð. Hún er líklegri en aðrir til að kaupa heilsusamlegar, ferskar og próteinríkar vörur sem eru með lágt kaloríuinnihald. Sókn í próteinrík matvæli geta rutt brautina fyrir ufsa sem gæti annað eftirspurn þessa yngri neytendahóps. Í samanburði við annan hvítfisk, eins og þorsk og alaskaufsa, er ufsi próteinríkari og auk þess auðugri af öðrum mikilvægum næringarefnum.

ufsa tafla
ufsa tafla

Innan við helmingur kvótans veiddur

Norska sjávarafurðaráðið bendir á að ufsi sé einkar sjálfbær valkostur í hvítfiski sem þakka megi sterkum stofni í Barentshafi sem endurspeglist í miklum kvóta þar sem og víðar. Þar segir einnig að ufsi sé mest veidda tegundin um þessar mundir í norskri lögsögu. Hann sé engu að síður hentugur valkostur fyrir neytendur sjávarfangs sem vilja draga úr umhverfisáhrifum með neyslu sinni. Kvótaráðgjöf í ufsa á yfirstandandi ári er 193.000 tonn í Barentshafi og Norður-Íshafi og 79.000 tonn í Norðursjó, Skagerak og Kattegat. Á yfirstandandi fiskveiðiári er aflamark í ufsa í íslenskri fiskveiðilögsögu tæp 68.000 tonn og aflinn sem af er ári einungis tæp 29.000 tonn.

Meðan kílóverð á óslægðum þorski er yfir 500 kr. fæst óslægður ufsi á um 155 kr./kg. Mynd/Bergþór Gunnlaugsson Bergþór Gunnlaugsson
Meðan kílóverð á óslægðum þorski er yfir 500 kr. fæst óslægður ufsi á um 155 kr./kg. Mynd/Bergþór Gunnlaugsson Bergþór Gunnlaugsson

Í könnuninni kemur fram að 85% aðspurðra kannast af eigin reynslu við neikvæð áhrif af loftslagsbreytingum og 46% þeirra segjast af þessum sökum beina kaupum sínum að vörum með sjálfbærni í huga. Það þyki því ljóst að áhugi á sjálfbærum matvælum sé kominn til að vera.

Sögulega séð hefur veiði á ufsa verið undir útgefnum aflaheimildum, jafnt hér við land sem annars staðar. Ufsastofninn hefur því víða haldist tiltölulega sterkur í gegnum árin. Staðreynd sem þessi höfðar til hóps neytenda sem sækist eftir öðrum hvítfiski á góðu verði sem veiddur er á sjálfbæran hátt.