Fjármálakreppan sem verið hefur hvað tilfinnanlegust í löndum Suður-Evrópu, Grikklandi, Ítalíu, Spáni og Portúgal, hefur ekki leitt til minni sölu á sjávarafurðum, þvert á móti. Á árabilinu 2009-2012 jókst salan að meðaltali um 15% og var vöxturinn mestur í Portúgal.
Frá þessu er skýrt á vef færeyska útvarpsins og vísað í erindi sem Lars Liabö frá greiningarfyrirtækinu Kontali flutti var á sjávarútvegsráðstefnunni North Atlantic Seafood Forum sem haldið var í Björgvin í Noregi í síðustu viku.
Fram kemur að aukin sala á eldislaxi sé meginskýringin á aukinni sölu sjávarafurða í þessum löndum. Þannig hafi sala á laxi í Portúgal numið 13.200 tonnum á árinu 2012 sem er 28% meira en árið 2009; í Grikklandi 6.900 tonn (21% aukning), á Ítalíu 49.500 tonn (15%) og á Spáni 60.400 tonn (11%).
Alls voru þannig seld 130.000 tonn af laxi í þessum löndum fjórum á árinu 2012 sem er 15% meira að meðaltali en á árinu 2009.
Jafnframt kom fram að í Evrópu allri jókst sala á laxi um 75% milli áranna 2009 og 2012 og í heiminum öllum um 37%.