Hrefnuveiðar Norðmanna gengu vel í sumar. Alls veiddist 731 dýr en 21 bátur stundaði veiðarnar, að því er fram kemur á vef norsku sölusamtakanna Norges Råfisklag.
Á Svalbarðasvæðinu voru skotnar 356 hrefnur en dýrin veiddust að öðru leyti meðfram strönd Noregs. Veiðarnar hófust í maí og þeim lauk í ágúst. Á vegum Norges Råfisklag voru seld 867 tonn af hvalkjöti og var verðmæti þess um 29,3 milljónir króna (533 milljónir ISK).
Veður var hagstætt til hrefnuveiða í sumar og mikið um hrefnu á miðunum. Þetta leiddi til aukinnar veiði miðað við árið 2013 en þá veiddust 590 dýr.
Á vef Norges Råfisklag er minnt á að Norðmenn stundi sjálfbærar veiðar á hrefnu og að hrefnukjötið sé selt innanlands í verslunum og á veitingastöðum. Hrefnukjöt njóti sívaxandi vinsælda og sé góður valkostur fyrir þá sem skella kjöti á grillið í sumarblíðunni.