Fiskneysla í Bandaríkjunum er að aukast og eldisfiskur er mun vinsælli en áður. Þetta kemur fram í árlegri skýrslu NOOA, Umhverfis- og auðlindastofnunar Bandaríkjanna, um fiskveiðar og fiskneyslu þar vestra. Samkvæmt skýrslunni jók hver Bandaríkjamaður fiskneyslu sína um tæpt hálft kíló á árinu 2015.
Um 4,4 milljónum tonna var landað af fiski og skelfiski í Bandaríkjunum á árinu 2015 að verðmæti 5,2 milljarðar dollara (593 milljarðar ISK). Magn og verðmæti er svipað og árið á undan. Sjávarútvegur er mikilvægur en um 1,8 milljónir manna starfa við hann.
Sú tegund sem skilaði mestum verðmætum var humar, eða 679 milljónum dollara (77 milljarðar ISK), krabbaveiðar skiluðu svipuðum verðmætum, rækjan gaf 488 milljónir dollara (55 milljarðar ISK), lax 460 milljónir (52 milljarðar ISK) og alaskaufsi 442 milljónir (um 50 milljarðar ISK).
Að magni til var langmest veitt af alaskaufsa en landað var tæpum 1,5 milljónum tonna af honum og jókst veiðin um 4% frá árinu áður.
Í skýrslunni kemur einnig fram að hver Bandaríkjamaður hafi borðað að meðaltali 7 kíló af fiski á ári.
Fiskeldi í Bandaríkjunum er umtalsvert. Á árinu 2015 voru framleidd 276 þúsund tonn að verðmæti 1,3 milljarða dollara (147 milljarðar ISK). Helstu tegundir eru ostrur, skelfiskur og lax.
Dutch Harbor í Alaska er mikilvægasta fiskihöfnin í Bandaríkjunum. Þar var landað 315 þúsund tonnum í fyrra að verðmæti 218 milljónir dollara (um 25 milljarðar ISK).