Færeyski sjávarútvegsherrann hefur ákveðið að auka kolmunnakvóta Færeyja um hvorki meira né minna en 143.000 tonn á yfirstandandi ári. Kolmunnaskipin hafa áður fengið úthlutað 200.000 tonnum og bætast 23.000 tonn við þeirra kvóta, en hin 120.000 viðbótartonnin eru sett í sameiginlegan kvóta sem öll færeysk fiskiskip með veiðileyfi geta nýtt.
Frá þessu er skýrt á vef Norðlýsið í Færeyjum . Þar kemur einnig fram að í tengslum við kvótaaukninguna hafi ráðherrann boðað frumvarp sem veiti heimild til þess að innheimta veiðigjald af skipum sem stundi kolmunnaveiðar. Frumvarpið verður lagt fram sem fyrst og gjaldið innheimt frá þeim tíma sem lögin verða samþykkt, þ.e. þegar á þessu ári.
Sem kunnugt er hefur ekki náðst samkomulag um kvótaskiptingu kolmunnastofnsins milli veiðiríkjanna í NA-Atlantshafi og hefur hver þjóð því sett sér sinn kvóta einhliða. Jan Arge Kacobsen fiskifræðingur í Færeyjum lýsir áhyggjum af þessari þróun í viðtali við færeyska útvarpið og vekur athygli á því að miðað áform veiðiríkjanna kunni kolmunnaaflinn að komast í 1,5 milljónir tonna á næsta ári en veiðiráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) geri ráð fyrir 822 þús. tonna veiði.