Fiskútflutningsráðið norska segir að ferskur þorskur og reyktur lax verði söluhæstu sjávarafurðir ársins á Frakklandsmarkaði. Mikil söluherferð er nú í gangi til að kynna norskar sjávarafurðir í Frakklandi og til að hvetja Frakka til að leggja sér norskan þorsk og lax til munns um jólin.

Á fyrstu níu mánuðum ársins höfðu frönsk heimili keypt 13.649 tonn af ferskum sjávarafurðum sem eru um 51% aukning frá sama tíma í fyrra. Verð á ferskum þorski hefur lækkað um 11% frá árinu 2008. Verðlækkunin hefur aukið eftirspurnina. Í ár hafa 33% heimila í Frakklandi keypt ferskan þorsk.

Verðlækkun á þorski í Frakklandi hefur valdið því að ódýrar eldistegundir frá Asíu, svo sem pangasius, hafa dregist saman í sölu á árinu sem nemur 23% miðað við sama tíma 2008.

Fiskútflutningsráðið norska verður með söluherferð í 2.337 sérverslunum með mat og 1.500 stórmörkuðum í Frakklandi þar sem norskur þorskur er á boðstólunum. Jafnframt verða norskar sjávarafurðir auglýstar í sjónvarpi og útvarpi.

Heimild: Fisker Forum.