Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, hélt í gær opnunarávarp á fundi í Þrándheimi um bláa hagkerfið á vegum norsku rannsóknarstofnunarinnar SINTEF. Ráðherra tók þátt í ríkisheimsókn forseta Íslands til Noregs og var fundurinn um bláa hagkerfið hluti af dagskrá heimsóknarinnar.

Daði Már lagði í ávarpi sínu áherslu á mikilvægi rannsókna og þekkingar á sviði auðlindamála. Ísland ráði yfir margvíslegum auðlindum til sjós og lands. Nýting auðlinda hafsins, fyrst og fremst fengsælla fiskimiða, hafi verið eitt helsta viðfangsefnið. „Það er alþekkt að því geta fylgt erfiðar áskoranir fyrir þjóðir að búa yfir miklum auðlindum. Það hefur átt við Íslendinga eins og aðra.“

„Í upphafi gáfum við okkur að áhrif mannsins á þessi vistkerfi væru lítil, en sú forsenda hefur reynst röng á Íslandi eins og annars staðar“ sagði ráðherra.
Rannsóknir og þekking væru grundvallarforsenda fyrir skynsamlegri auðlindanýtingu og sem betur fer hafi Íslendingar fetað þá braut á undanförnum áratugum. Ísland hefði verið meðal fyrstu þjóða til að innleiða kvótakerfi og þar hefðu hagfræðirannsóknir m.a. legið til grundvallar. Sjávarútvegur á Íslandi spjaraði sig vel.

„Um þessar mundir er spennandi þróun í því sem kallað er bláa hagkerfið,“ sagði Daði Már og nefndi að Ísland stæði nú meðal fremstu þjóða þegar kæmi að nýjum tækifærum. Væri fyrirtækið Kerecis á Ísafirði gott dæmi um það, en Kerecis framleiðir lækningavörur vörur úr fiskroði. Einnig væru tækifæri að skapast á Íslandi í sjálfbæru og umhverfisvænu fiskeldi og tækifæri væru enn fremur að aukast t.d. í þörungavinnslu.

Ráðherra lagði áherslu á að auðlindarannsóknir væru grunnurinn að áframhaldandi verðmætasköpun í íslensku hagkerfi, sem og fjárfestingar á þessu sviði. Ríkið yrði að fjárfesta í rannsóknum og menntun.

„Þá er mikilvægt að Ísland taki áfram virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi til að vernda hið alþjóðlega kerfi sem byggst á sameiginlegum reglum en ekki afli hins sterka. Við eigum allt undir því að alþjóðasamskipti byggist á reglum og samningum. Það kerfi hefur tryggt yfirráð okkar yfir auðlindum Íslands og við getað breytt þeim í varanleg verðmæti fyrir íslensku þjóðina.“