Samkvæmt tölum sem Radarinn, mælaborð sjávarútvegsins, styðst við frá Hagstofu Íslands, fengu að jafnaði um 890 einstaklingar greiddar staðgreiðsluskyldar launagreiðslur í fiskeldi í mánuði hverjum á fyrstu níu mánuðum ársins. Frá sama tímabili árið 2010 hefur fjöldinn hátt í fimmfaldast.

Sama er upp á teningnum með staðgreiðsluskylda launasummu, þ.e. samanlagðar staðgreiðsluskyldar launagreiðslur alls launafólks innan greinarinnar, sem hér eru nefndar atvinnutekjur. Þær námu ríflega 7.600 milljónum króna á fyrstu níu mánuðum ársins, sem er hátt í níu sinnum hærri fjárhæð að raunvirði en á sama tímabili árið 2010. Vart þarf að nefna að aldrei hafa fleiri einstaklingar starfað í fiskeldi hér á landi og nú í ár. Að sama skapi hafa atvinnutekjur í greininni aldrei verið meiri.

Í raun hefur hlutfallsleg aukning launafólks eða atvinnutekna hvergi verið meiri en í fiskeldi af öllum atvinnugreinum hér á landi frá árinu 2010, segir í umfjölluninni í Radarnum. Og í raun er sama hvaða upphafsár er tekið mið af frá þeim tíma, aukningin er iðulega mest í fiskeldi. „Því er eðlilegt að velta fyrir sér hvort að þessi tiltekna atvinnugrein, fiskeldi, falli vel að íslensku samfélagi. Í því sambandi er ágætt að rýna í atvinnutekjur á mann í fiskeldi og skoða hvernig þær þróast í samanburði við aðrar atvinnugreinar að jafnaði. Hér ber vissulega að halda til haga að hér er um grófa nálgun að ræða þar sem ekki er tekið tillit til fjölda vinnustunda.“

Nánar má lesa um þetta á vef Radarsins.