Nokkur ár eru nú liðin frá því Bandaríkin gerðu umheiminum það ljóst að þau myndu ekki kaupa sjávarafurðir úr veiðum sem valda sjávarspendýrum skaða. Þau hafa ekki enn gefið skýr svör um það hvernig kröfurnar verða útfærðar.
„Niðurstaðan er eiginlega sú að þetta er grásleppuvandamál í selunum,“ segir Guðjón Már Sigurðsson, fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnun.
Guðjón er einn höfunda vísindagreinar sem birtist í mars síðastliðnum þar sem verið er að skoða leiðir til að bregðast við yfirvofandi kröfum Bandaríkjamanna um vernd sjávarspendýra. Bandaríkin hafa lýst því yfir að frá og með ársbyrjun 2023 verði enginn innflutningur leyfður til Bandaríkjanna á sjávarafurðum úr veiðum sem valda sjávarspendýrum tjóni.
„Markmiðið er að reyna að búa til tól fyrir þjóðir til að bæði sýna fram á hvar þær standa og eins hjálpa þeim hvað þarf að gera.“
Höfundarnir eru 15 talsins, þar af þrír frá Íslandi, þau Guðjón Már, Gísli Víkingsson og Sandra Magdalena Granquist, sem öll starfa hjá Hafrannsóknastofnun. Ísland er þar tekið sem dæmi og kannað hvernig mögulegt sé að draga úr áhrifum fiskveiða á sjávarspendýr, einkum seli og hnísur.
Það eru bandarísku samtökin Lenfest Ocean Program sem styrkja þessar rannsóknir, sem gerðar eru til þess að aðstoða þjóðir heims við að bregðast við kröfum Bandaríkjanna.
Mismunandi leiðir
„Við erum komnir með þrjár greinar út. Þessi íslenska var sú fyrsta, og það var að koma í síðustu viku út grein þar sem Chile var sýnidæmi. Síðan eru tvær greinar á leiðinni um það hvernig er best að meta meðafla, og hvernig er best að meta stofnstærðir spendýra, og annað svoleiðis.“
Í greininni er skoðað hvaða áhrif mismunandi veiðistjórnun gæti haft á meðafla sjávaspendýra í netaveiðum við Ísland. Aðalhöfundur greinarinnar, André Punt, setti upp nokkur tölfræðilíkön til að auðvelda samanburðinn. Hér á landi snýst þetta fyrst og fremst um meðafla í netaveiðum, og þá einkum grásleppu- og þorskveiðum.
Kröfurnar eru strangastar hvað landselinn varðar, enda er hann á válista Náttúrufræðistofnunar. Bandaríkin krefjast þess að ekki fleiri en 38 dýr komi í grásleppunet, en sem stendur er reiknað með því að nærri 1.400 (900-1800) landselir komi í grásleppunet hér við land ár hvert. Eins hafa grásleppusjómenn skráð um og yfir 300 landseli í afladagbækur undanfarin ár. Það þarf því töluvert að breytast til þess að uppfylla þær kröfur.
Meðafli í þorskveiðum er mun minni, en í greininni er meðal annars skoðað hvernig það kæmi út ef dregið yrði verulega úr meðafla við annað hvort þorsk- og grásleppuveiðar í net, eða bæði.
„Þótt þorskveiðum yrði hætt alveg og þeir nokkru selir sem þar koma myndu lifa af þá skiptir það engu máli af því að grásleppan er aðalmálið. Þetta er megin niðurstaðan,“ segir Guðjón Már.
Skýr svör vantar enn
Útflutningur á grásleppuhrognum til Bandaríkjanna hefur jafnan verið mjög lítill, þannig að ein hugmyndin væri að hætta að selja grásleppuafurðir til Bandaríkjanna. Mögulega þyrfti þá ekki að hafa áhyggjur af meðafla við grásleppuveiðar.
„Hins vegar er dálítill vafi á túlkun hjá stjórnvöldum í Bandaríkjunum hvernig þeir muni leysa svona mál til dæmis. Segjum að við myndum hætta að flytja grásleppu út til Bandaríkjanna, hvað gera þeir þá við upplýsingarnar um að það eru veiðar þarna sem skaða sjávarspendýr? Við vitum það ekki. Mögulega myndu þeir taka tillit til grásleppuveiðanna í sýnum útreikningum samt sem áður, ekki hafa fengist skýr svör um það."
Guðjón Már kynnti þessar rannsóknir í nefnd, sem hann situr í, á vegum íslenskra stjórnvalda þar sem unnið er að því að móta viðbrögð við þessum bandarísku kröfum. Víða um heim eru stjórnvöld að fást við þetta sama mál, enda ná bandarísku reglurnar til alls innflutnings sjávarafurða þangað
„Það er líklegt að víða sé hluti afla fluttur til Bandaríkjanna en kannski aðrar tegundir ekki, eins og er nú eiginlega með grásleppuna hér á landi. Það er voðalega lítið af henni sem fer til Bandaríkjanna, en svo er þorskurinn náttúrlega mjög mikilvægur til Bandaríkjanna. Þetta mun líka koma upp víðar örugglega, einhverjar veiðar sem eru góðar aðrar ekki.“
Guðjón segist ekki telja að Bandaríkin muni stöðva innflutninginn eins og staðan á landselastofninum er núna.
„Ef við myndum ekki gera neitt, þá myndu þeir fella okkur. En varla ef við erum komin af stað með aðgerðaráætlun og byrjuð að fylgja þeirra reglum.“