Belgískir og hollenskir sjómenn, sem hafa árum saman tekið þátt í fjölþjóðlegu átaki við að hreinsa rusl úr Norðursjó, segjast vera farnir að sjá árangur.
Átakið nefnist „Fishing for litter“ eða „Veiðum rusl“ og fór af stað í smáum stíl í Hollandi fyrir rúmum tuttugu árum. Smám saman fjölgaði þátttakendum og nú er þá að finna í flestum Evrópulöndum.
Fréttavefurinn The Fishing Daily greinir frá og ræðir við hollenskan krabbaveiðimann, Sander Meijer, sem segist sjá augljós merki þess að sjávarrusl sé orðið minna á flestum veiðisvæðum.
„Nema við siglingaleiðirnar, þar sem skemmtiferðaskipin, gámaskipin og skemmtisnekkjurnar sigla.“
Mikill munur sé hins vegar sjáanlegur þar sem hann hefur verið að veiðum.
„Það eru veiðisvæði þar sem við komum að landi með sex fulla poka fyrsta árið. Það er búið núna með einn stóran poka.“
Meðal þess sem algengt er að veiða upp úr sjónum, oft af hafsbotni, eru smurolíukönnur, eldsneytisbrúsar, ruslapokar, pakkningar, málningarfötur, netadræsur og jafnvel handjárn, að því er The Fishing Daily segir.
Árið 2019 tóku 134 bátar og 13 hafnir þátt í þessu verkefni. Það ár söfnuðust alls 558 tonn af rusli. Þátttökulöndin eru nú orðin níu.
Sjómennirnir eru sjálfboðaliðar. Þeir hirða rusl úr hafinu, koma því í land þar sem tekið er á móti því, það þurrkað, flokkað, skráð og endurunnið.