Hafrannsóknastofnun kynnti síðastliðinn föstudag fiskveiðiráðgjöf fyrir fiskveiðiárið 2023-2024, sem hefst 1. september næstkomandi. Í þorski er ráðgjöfin nánast óbreytt frá fyrra ári, hækkar um 1% eða úr 208.846 tonnum í 211.309 tonn. Ýsan hækkar hins vegar um 23% og gullkarfinn um 62%.

Stofnunin telur góðar líkur á því að viðmiðunarstofn ýsu haldi áfram að stækka næstu tvö árin vegna góðrar nýliðunar árin 2019-2021, en aftur á móti sé fyrirséð að gullkarfastofninn fari minnkandi á næstu árum og draga þurfi verulega úr sókn.

Almennt metur Hafrannsóknastofnun það svo að ástand þorskstofnsins sé gott og nýliðun hafi verið stöðug og því líklegt að stofnstærðin muni „sveiflast í kringum núverandi ástand á næstu árum.“

Breyttist með aflareglunni

„Okkar mat er að stofnstærðin sé með því hæsta sem við höfum séð í mjög mörg ár. Þrjátíu ár eða svo,“ segir Bjarki Þór Elvarsson, fagstjóri ráðgjafar á Hafrannsóknastofnun. Þetta segir hann gilda bæði um viðmiðunarstofn og hrygningarstofn þorsksins, en þessa hækkun í stofnstærð megi rekja til þess „að við drógum saman sóknina töluvert í kringum 2000 þegar aflareglan kom í gildi. Svo erum við núna að komast í jafnvægi með stofninn.“

Ef farið er lengra aftur í söguna má sjá að þorskstofninn var töluvert stærri á árunum fyrir 1960. Bjarki segir að í kringum seinna stríð og árunum eftir hafi „veiðiálag verið lítið, auk þess sem að nýliðun hafi verið betri. Það hafði því verið minni veiði fram að þessum tíma og það gæti vel verið að þorskgöngur frá Grænlandi hafi verið stærri hluti af stofninum hér á árum áður. En svo hrundi þorskstofninn við Grænland í kringum 1970, líklega vegna ofveiði, en þennan samgang milli Íslands og Grænlands þarf að rannsaka betur.“

Hafa dempað væntingarnar

Sjómenn hafa stundum gagnrýnt stofnunina fyrir að hafa ekki náð stofninum upp í þær stærðir sem hann var í áður en veiðitakmarkanir hófust að marki.

„Það er svo margt sem hefur breyst á þessum tíma,“ segir Bjarki. „Fyrir 1980 var nýliðunin allt önnur. Það kom meira af stórum árgöngum með nokkuð reglulegu millibili, sem við vitum ekki af hverju koma ekki núna. Í kringum 1990 töldum við að við myndum sjá aftur svipaða nýliðun og hafði verið fyrir 1980, en núna í ár er komin svo löng röð af þessu nýja ástandi af nýliðun og þá erum við farin að dempa okkar væntingar um það hvað hægt er að veiða úr stofninum. Ég skil alveg hvað menn eru að hugsa, en þetta eru þær upplýsingar sem við höfum í dag og við verðum að byggja okkar ráðgjöf á þeim. Lykilatriðið er að halda stofninum sterkum til þess að þola áföll sem mögulega geta komið, og þá er betra að vera ekki með hann lengst niðri.“

Ýsan eldri

Hvað ýsuna varðar þá hefur ráðgjöfin hækkað nokkuð hratt síðustu árin. Á næsta fiskveiðiári er talið óhætt að veiða 76.415 tonn, sem er nærri tvöföldun frá árinu 2019 þegar stofnunin taldi óráðlegt að veiða meira en 42 þúsund tonn.

Bjarki að nú sé raunar eitthvað að gerast hjá ýsunni sem sé svipað og sést hefur hjá þorskinum.

„Það er miklu meira af stærri fiski og góðum fiski þannig að upplifun fólks er að það sé nóg af fiski. En þetta er bara það að stærri hluti af stofninum er eldri, sem er þá fiskur sem er mjög æskilegur eða veiðanlegur. Það sem gerðist er að veiðihlutfallið lækkaði mjög ört eftir að aflareglan var sett á og þá sáum við að það var að koma miklu meira af stórum fiski. Það er vegna þess að þegar þú veiðir minna þá ná fiskarnir hærri aldri. Þetta sem er að gerast hjá ýsunni er þannig svipað og við höfum séð hjá þorskinum.“

Ekki eins áreiðanleg

Hvað nýliðun varðar sé ýsan hins vegar ekki eins áreiðanleg og þorskurinn.

„Það er mjög mikill breytileiki á nýliðun í ýsunni. Þetta er velþekkt í ýsustofnum að þeir hegða sér svona, og það er reyndar ástæðan fyrir því að við erum með svo lágt veiðihlutfall í ýsunni. Það er vegna þess að við verðum að eiga meira inni fyrir tímabilið þegar næstum því engin nýliðun kemur. Þetta er líka munurinn á þorskinum og ýsunni. Þorskurinn er svo stöðugur, það er til þess að gera svipuð árgangastærð í næstum öllum árgöngum. Það er sú saga sem við erum búin að sjá upp á síðkastið. En það er alveg öfugt í ýsunni, þar þarf alltaf að lifa af mögru árin milli stóru árganganna.“