Kristján Kristinsson, fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnun, segir nauðsynlegt að hnykkja á nokkrum atriðum til að rétta af umræðu um ráðgjöf og stjórnun á djúpkarfaveiðum við Ísland. Hann fer yfir málið í eftirfarandi aðsendri grein:

Nýliðun karfastofna í heimshöfunum er mjög sveiflugjörn og gjarnan langt milli þess sem sterkir árgangar sjást. Jafnframt eru karfategundir hægvaxta og seinkynþroska, Því er mikilvægt að veiðihlutfall sé lágt því þannig má draga úr sveiflum í veiðum og halda hrygningarstofni yfir varúðarmörkum. Djúpkarfastofninn við Ísland er metinn undir varúðarmörkum og að það eru orðin meira en 15 ár síðan vart varð við þokkalega nýliðun í djúpkarfastofninum. Mælingar Hafrannsóknastofnunar sýna því langvarandi brest í nýliðun sem á komandi árum mun leiða til enn frekari minnkunar hrygningarstofns djúpkarfa. Mun það ástand vara þar til nýliðun batnar. Allar veiðar munu því hafa neikvæð áhrif á stofninn.

Þann 21. nóvember 2024 gaf þáverandi matvælaráðherra út 3.800 tonna aflamark fyrir djúpkarfa fyrir fiskveiðiárið 2024/2025 en í júlí 2024 hafði þáverandi matvælaráðherra farið að ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og ekki úthlutað aflamarki fyrir fiskveiðiárið 2024/2025.

Ástæða fyrir ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um ekkert aflamark (0 tonna ráðgjöf) fiskveiðiárin 2023/2024 og 2024/2025 er slæmt ástand stofnsins sem er metinn undir varúðarmörkum og nýliðun síðustu 15 ár eða svo hefur verið lítil sem engin. Þetta er staðfest bæði með gögnum úr stofnmælingum og úr afla fiskiskipa.

Í þessari grein verða forsendur ráðgjafar Hafrannsóknastofnunar útskýrðar nánar.

Líffræði djúpkarfa

Djúpkarfi (Sebastes mentella) á Íslandsmiðum telst til karfaættkvíslarinnar (Sebastes). Djúpkarfi er, líkt og aðrar karfategundir, langlíf tegund sem getur náð meira en 50 ára aldri og verður seint kynþroska (10–14 ára) og telst því hægvaxta. Tegundir með slíkan lífsferil eru jafnan viðkvæmar fyrir miklu veiðiálagi og langan tíma þarf til að ná viðsnúningu í stofnþróun eftir ofveiði. Einnig er sóknarþungi sem gefur hámarksafrakstur til lengri tíma litið mun minni en í skammlífari tegundum eins og þorski, ýsu og ufsa.

Djúpkarfi telst til botnfiska þó hann sé í raun bæði botn- og miðsævisfiskur. Við Ísland er hann algengastur á 500–800 m dýpi á landgrunnshallanum í hlýja sjónum vestur, suður og suðaustur af landinu.

Djúpkarfi, líkt og aðrar karfategundir, gýtur lifandi afkvæmum. Mökun á sér stað á haustin og síðan á sér stað innri frjóvgun þar sem egg þroskast í hrygnunni sem gýtur lifandi afkvæmum (lirfur) á vorin.

Heimkynni djúpkarfa er í Norður- Atlantshafi, beggja megin Atlantsála. Djúpkarfa er, auk á Íslandsmiðum, að finna við Austur-Grænland, milli Íslands og Grænlands, í Grænlandshafi suðvestan Íslands og við Færeyjar. Allsherjarúttek á breytileika djúpkarfa á þessu svæðum gefa til kynna skiptingu í a.m.k. þrjá stofna; auk djúpkarfa við Ísland eru tveir stofnar í Grænlandshafi og aðliggjandi hafsvæðum, svonefndur úthafskarfi sem skiptist efri og neðri stofna. Lang líklegast er að uppruni efri stofns úthafskarfa sé við austurströnd Kanada og verður ekki fjallað frekar um hann hér.

Djúpkarfi á Íslandsmiðum (innan íslensku efnahagslögsögunnar) er skilgreindur sem sérstakur líffræðilegur stofn og sem sérstök stjórnunareining. Kynþroska djúpkarfi á landgrunni og landgrunnshlíðum Austur-Grænlands er skilgreindur sem sér stjórnunareining þó ekki sé vitað um stofngerð hans. Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndin (NEAFC) fer með stjórnun veiða neðri stofns úthafskarfa sem er skilgreindur sem sér stjórnunareining.

Mjög líklegt er að samgangur sé á milli neðri stofns úthafskarfa í Grænlandshafi, djúpkarfa við Ísland og djúpkarfa við Austur-Grænland. Djúpkarfi á þessum svæðum á það sammerkt að stofnstærð hefur minnkað mikið. Samkvæmt úttekt Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES), sem Hafrannsóknastofnun kemur að, er staða neðri stofns úthafskarfa og djúpkarfa við Austur-Grænland talin mjög slæm. Ráðgjöf ICES hefur verið 0 tonn fyrir neðri stofn úthafskarfa frá árinu 2017 og fyrir djúpkarfa við Austur-Grænland frá árinu 2022, þ.e. ráðlagt er að engar veiðar skuli stundaðar úr þessum stofnum. NEAFC hefur frá árinu 2020 samþykkt að engin veiði yrði úr neðri stofni úthafskarfa vegna bágrar stöðu stofnsins. Rússar hafa mótmælt þessu samkomulagi og stunda enn þá veiðar úr stofninum.

Kristján Kristinsson fiskifræðingur.
Kristján Kristinsson fiskifræðingur.

Stofnmat á djúpkarfa

Fram til ársins 2023 var tölfræðilegt stofnmat ekki framkvæmt á djúpkarfa þar sem nægjanlegar upplýsingar voru ekki fyrir hendi. Grunnur ráðgjafar var því samkvæmt forskrift ICES fyrir slíka stofna en vísitölur (í þessu tilfelli stofnvísitala djúpkarfa úr Stofnmælingu botnfiska að hausti (SMH) 2000–2022) voru taldar gefa mynd af breytingum í stofnstærð. Þessi aðferð tekur ekki tillit til líffræðilegra þátta eins og lengdar, aldurs, kynþroska og nýliðunar, né var notast við líffræðileg gögn úr afla. Bæði Hafrannsóknastofnun og ICES höfðu bent á viðvarandi nýliðunarbrest hjá djúpkarfa og til að taka tillit til þessa hafði varúðarnálgun verið beitt til lækkunar á ráðgjöf. Þessi nálgun er huglæg en almennt er henni beitt þriðja hvert ár. Í tilfelli djúpkarfa var farið að beita henni árlega vegna þessa nýliðunarbrests og þannig kerfisbundið reyna að draga úr veiðum.

ICES taldi að sú aðferðafræði sem beitt var hafi ekki samræmst varúðarsjónarmiðum. Því töldu bæði Hafrannsóknastofnun og ICES að mikilvægt væri að hanna tölfræðilegt stofnmatslíkan og skilgreina um leið gátmörk. Slík vinna hófst árið 2019 og var líkanið kynnt í tækniskýrslu Hafrannsóknastofnunar í júní 2020. Vegna COVID og anna hjá ICES reyndist ekki unnt að hafa rýnifund um breytt stofnmat fyrr en í ársbyrjun 2023.

Aðferðafræðin við stofnmat djúpkarfa var samþykkt á rýnifundi ICES í febrúar 2023 og hefur fengið ítarlega vísindalega rýni. Djúpkarfastofninn er nú metinn með tillit til hámarksafraksturs. Nýja stofnmatslíkanið nýtir upplýsingar um aldurs- og stærðarsamsetningu í stofni (upplýsingar fengnar úr stofnmælingaleiðöngrum) og afla. Þessi breyting á stofnmatsaðferð eykur gæði stofnmats og treystir grunn ráðgjafar með því að lýsa betur breytingum í stofnþróun með því að taka tillit til breytingar í aldurs- og stærðarsamsetningu.

Ástand djúpkarfa

Í ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar sem birt var 7. júlí 2024 segir um stöðu stofnsins:

Veiðiálag er yfir kjörsókn (FMSY), gátmörkum (Fpa) og varúðarmörkum (Flim). Stærð hrygningarstofns er undir aðgerðarmörkum (MSY Btrigger), gátmörkum (Bpa) og varúðarmörkum (Blim).

Í ráðgjöfinni segir um nýliðun:

Smáum djúpkarfa (≤30 cm) í stofnmælingaleiðangri hefur fækkað mikið frá árinu 2007 sem gefur til kynna að nýliðun sé lítil. Þar sem ekki er að vænta umtalsverðrar nýliðunar á næstu árum er líklegt að framleiðni stofnsins minnki. Í fyrirsjáanlegri framtíð mun hrygningarstofn halda áfram að minnka, óháð nýliðun, vegna þess hve seint djúpkarfi verður kynþroska.

Þetta þýðir að ástand stofnsins er talið vera mjög slæmt. Stofninn samanstendur einungis af eldri kynþroska fiski og engin nýliðun hefur átt sér stað í hart nær tvo áratugi. Allar veiðar munu leiða til enn frekari minnkunar á stofninum og þeim má einfaldlega líkja við námugröft sem ekki getur talist til sjálfbærrar nýtingar.

Hrygningarstofn djúpkarfa er metinn hafa minnkað hratt síðan seint á níunda áratug síðustu aldar fram að öndverðum aldamótum. Síðan kom tímabil þar sem stofninn var nokkuð stöðugur um eða undir viðmiðunarmörkum en hefur frá 2020 minnkað. Hrygningarstofninn er nú metinn sá minnsti frá árinu 1975. Ástæðan er mjög léleg nýliðun í meira en 15 ár og umtalsverð ofveiði á árunum milli 1995 og 2005.

Nýliðun

Smár djúpkarfi (seiði og ungfiskur <25 cm) finnst nær eingöngu við Austur- og Vestur-Grænland og hefur ekki fundist í þeim stofnmælingaleiðöngrum sem eru framkvæmdir við Ísland né í Grænlandshafi. Því er talið að uppeldissvæði djúpkarfa sé að finna við Austur-Grænland.

Upplýsingar um nýliðun karfa við Austur-Grænland (bæði gull- og djúpkarfi, þar sem ekki er greint á milli tegunda karfa <18 cm) er að fá úr haustleiðangri Þjóðverja við Austur-Grænland frá árinu 1982, en einnig úr stofnmælingaleiðangri Grænlendinga á sama svæði frá árinu 2008. Í leiðangri Þjóðverja hefur nýliðunarvísitalan verið lág frá árinu 2008 og undanfarin ár hefur ekkert fengist af karfa <18 cm sem gefur til kynna litla sem enga nýliðun. Í stofnmælingaleiðangri Grænlendinga var mjög lítið af smáum karfa árin 2013–2016 en töluvert magn árin 2022 og 2023. Þessi nýliðunaraukning er sambærileg þeirri aukningu á smáum gullkarfa í stofnmælingaleiðangri við Ísland að vori undanfarin ár og því líklegt að um gullkarfa (Sebastes norvegicus) sé að ræða. En óháð því hvort um djúpkarfa eða gullkarfa sé að ræða, mun það taka a.m.k. 10 ár þangað til þessi fiskur kemur inn í veiðistofninn.

Til að meta nýliðun djúpkarfa við Ísland er nærtækast að rýna í aldurs- lengdarsamsetningu stofnsins í SMH. Ef nýliðun er góð sést það í magni yngsta karfans sem fæst í SMH. Töluvert fékkst af djúpkarfa 10 ára og yngri á upphafsárum SMH upp úr aldamótum og einnig var töluvert magn af 25-30 cm fiski. Á síðustu árum hefur nánast ekkert fengist af djúpkarfa yngri en 11 ára og ekkert af djúpkarfa minni en 35 cm. Aldurs- og lengdardreifingar hafa á undanförnum árum hliðrast til til hægri, þ.e. er í eldri og stærri fisk sem gefur sterkar vísbendingar um viðvarandi nýliðunarbrest.

Það sem einkennir karfategundir er að mörg ár geta liðið milli stórra árganga. Þess á milli er nýliðun lítil eða mjög lítil. Hjá djúpkarfa hefur nánast engin nýliðun átt sér stað frá árinu 2010. Ekki er er vitað hvaða þættir stjórna nýliðun karfategunda, en hugsanlegt er að umhverfisaðstæður, eins og hitastig sjávar og sjávarstraumar, og frumframleiðni stjórni þar miklu. Þegar aðstæður eru óhentugar er líklegt að djúpkarfi sleppi úr hrygningu, eða lirfur og seiði nái ekki að dafna.

Nýliðun gullkarfa og djúpkarfa hér við land virðist haldast í hendur. Síðustu stóru árgangar þessara tegunda voru árið 1985 og 1990.

Landaður afli

Í umræðu um ráðgjöf og stjórnun á djúpkarfaveiðum við Ísland hafa komið fram rangar eða óljósar tölulegar upplýsingar um djúpkarfaafla. Hefur meðal annars verið fullyrt að 3.400 tonnum af djúpkarfa hafi verið landað af Íslandsmiðum fiskveiðiárið 2023/2024. Einnig hefur verið fullyrt að allur þessi afli hafi verið veiddur sem meðafli í veiðum á grálúðu og gulllaxi sem engin leið sé að komast hjá og því sé algjört lágmark að aflamark í djúpkarfa sé það sem veitt var á fiskveiðiárinu 2023/2024.

Þessar tölur eru ekki í samræmi við upplýsingar frá Fiskistofu þar sem fram kemur að 2.259 tonnum var landað af djúpkarfa veiddum á Íslandsmiðum á fiskveiðiárinu 2023/2024. Þó svo ekkert aflamark hafi verið gefið út fyrir tegundina voru 712 tonn flutt frá fyrra fiskveiðiári. Tegundatilfærsla (regla sem heimilar að afli í einni tegund dragist að ákveðnu marki frá aflaheimildum skips í annarri tegund) í djúpkarfa nam á þessu tímabili 1.280 tonnum. Það getur því reynst erfitt að meta hversu mikið af djúpkarfa fæst sem meðafli og hversu mikið er sótt beint í hann.

Jafnframt hefur verið fullyrt að stórum hluta djúpkarfaaflans hafi verið landað sem VS-afla (þar sem 80 % af sölurverðmætinu rennur í Verkefnasjóð sjávarútvegsins) á síðasta fiskveiðiári. Hversu stór hluti kemur þó hvergi fram. Eins og áður sagði var heildarafli djúpkarfa á Íslandsmiðum 2.259 tonn fiskveiðiárið 2023/2024. Samkvæmt tölum frá Fiskistofu var 284 tonnum eða tæpum 13 % aflans landað sem VS-afla. Mismunurinn útskýrist af því að 712 tonn voru flutt frá fyrra fiskveiðiári og afgangurinn eða 1.280 tonn fegnust í gegnum tegundatilfærslu.

Þegar reglugerð ráðherra tók gildi var búið að landa um 750 tonnum af djúpkarfa veiddum á Íslandsmiðum á núverandi fiskveiðiári. Því má áætla að heildarafli djúpkarfa verði nálægt 5.000 tonnum og stefnir í að vera tvöfalt meiri en fiskveiðiárið á undan.

Leiðir til að minnka meðafla djúpkarfa

Til að hindra frekari hnignun djúpkarfastofnsins við Ísland er nauðsynlegt að draga úr veiðum en ekki auka þær. Því má ná með því að fylgja ráðgjöf og reyna að draga sem mest úr meðafla djúpkarfa við aðrar veiðar, þá sérstaklega í gulllax- og grálúðuveiðum.

Til að draga úr meðafla eru ýmsar leiðir tiltækar, eins og svæðalokanir og breyta veiðiaðferðum.

Almennt má segja að frekar lítil skörun sé á veiðum á djúpkarfa og grálúðu nema þá helst vestur af landinu á svo kölluðu Hampiðjutorgi. Virðist hitastig vera mest ráðandi í því að aðskilja þessar tegundir þar sem grálúða heldur sig í mun kaldari sjó en djúpkarfi. Reglugerð um bann við veiðum með fiskibotnvörpu út af Norðvesturlandi með það markmið draga úr líkum á meðafla djúpkarfa við veiðar á grálúðu tók í gildi 11. október 2023 (reglugerð nr. 1097/2023). Var lokunarsvæðið afmarkað í samvinnu við skipstjórnarmenn.

Meiri skörun er á veiðislóð gulllax og djúpkarfa. Þó er erfitt að átta sig á hvort gulllax veiðist sem meðafli með djúpkarfaveiðum eða öfugt.

Frá fiskveiðiárinu 2016/2017 hefur einungis 40­-60% af útgefnu aflamarki gulllax verið veitt. Á þessu tímabili hefur um 10–30% af aflamarki gulllax verið notað í tegundatilfærslu en hlutfallið hefur verið lægra undanfarin fimm fiskveiðiár. Jafnframt er hluti aflamarksins flutt á milli ára (10–20%). Þetta þýðir að um 20–40% aflamarks hvers fiskveiðiárs hefur ekki verið nýtt.

Til að geta stundað gulllaxaveiðar og um leið minnka meðafla djúpkarfa er frekari rannsókna þörf en ýmsar leiðir eru fyrir hendi. Í þessu samhengi má nefna að við Noreg er gulllax er einkum veiddur með flotvörpu og er tiltölulega lítill meðafli í þeim veiðum. Einnig væri hægt að beina veiðum á gulllaxi á þau svæði þar sem lítið er af djúpkarfa eða beita skyndilokunum líkt og gert er við Noreg þar sem svæðum er lokað ef samanlagður meðafli karfa, ufsa og ýsu við gulllaxaveiðar er meiri en 1.000 kg í einu togi. Að lokum má nefna að hugsanlega væri hægt að útbúa veiðarfæri með skilju sem hleypir djúpkarfa úr trollinu.

Hafrannsóknastofnun er, sem fyrr, reiðubúin til frekari umræðu í samvinnu við hagsmunaaðila og Atvinnuvegaráðuneytið varðandi nánari útfærslur á því hvernig draga megi úr meðafla djúpkarfa við aðrar veiðar þannig að stuðla megi að sjálfbærri nýtingu stofnsins.