Margir fagna kvótasetningu en gagnrýna útfærsluna í frumvarpinu, sem hefur að geyma viðbrögð Kristjáns Þór Júlíussonar sjávarútvegsráðherra við tveimur dómum Hæstaréttar frá í desember.
Ísfélag Vestmannaeyja hf. og Huginn ehf. í Vestmannaeyjum, fyrirtækin tvö sem unnu sigur gegn ríkinu fyrir Hæstarétti í desember, „telja það til bóta að aflamarksstjórn verði tekin upp við veiðar á makríl“.
Þau telja það einnig til bóta að hlutur þeirra sjálfra aukist, enda sé núverandi ástand ólögmætt. Á hinn bóginn væri bæði eðlilegt og málefnalegt að til framtíðar verði reynt að búa svo um hnútana „að úthlutun einstakra aðila svari til þess sem þeim hefði að réttu lagi borið að lögum, hefði þeim verið fylgt á sínum tíma.“
Það er Stefán A. Svensson, lögmaður Ísfélagsins og Hugins, sem skrifar undir athugasemdir þessara fyrirtækja, en hann fór með mál fyrirtækjanna á hendur ríkinu vegna aflaúthlutunar við makrílveiðar. Hæstiréttur viðurkenndi þar skaðabótaskyldu ríkisins vegna tjóns fyrirtækjanna, þar sem úthlutun ríkisins til þeirra og fleiri fyrirtækja stóðst ekki ákvæði laga.
Hann segir að sú leið sem lögð er til í frumvarpinu virðist hugsuð sem eins konar málamiðlun eða „millivegur“, og vísar þá til þess að í frumvarpsdrögunum sé sagt líklegt að þær útgerðir sem höfðuðu mál á hendur ríkinu „muni hvorki ná fram fullri úthlutun miðað við veiðireynslu áranna fyrir 2011, sem vonir þeirra kunna að standa til, né heldur að staða þeirra verði óbreytt.“
Festir ólögmæti í sessi
Stefán segir að þar með sé að hluta verið að „festa afleiðngar hinnar ólögmætu úthlutanr í sessi,“ og tekur fram að fyrirtækin tvö áskilji sér allan rétt af því tilefni, þar með talið vegna framtíðarúthlutuna.
„Í öllu falli, sé leitast við að fara bil beggja, svo sem frumvarpsdrögin virðast leggja upp með sem fyrr segir, sé eðlilegt að það endurspeglist til muna betur í niðurstöðum hinnar nýju og breyttu úthlutunar“ og því ætti að fara aðra leið, „sem leiði af sér auknar heimildir til handa þeim sem sættu ólögmæti skerðingu á sínum tíma, þótt félögin þurfi eftir atvikum að þola einhverja skerðingu.“
Stefán segir enga knýjandi laganauðsyn að miða við tíu bestu árin af ellefu ára tímabilinu heldur sé vel hægt að miða við annað tímabil „sem leiðir af sér sanngjarnari og um leið málefnalegri „skiptingu“ til framtíðar.“
Hvorki málefnalegt né sanngjarnt
Vinnslustöðin hf. í Vestmannaeyjum tekur í svipaðan streng og segir þá leið sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu „ekki í fullu samræmi við umrædda dóma Hæstaréttar og leiði ekki til málefnalegrar né sanngjarnrar niðurstöðu.“
Samkvæmt frumvarpinu á að úthluta aflaheimildum fyrir makrílveiðar næstu vertíðar „á grundvelli tíu bestu aflareynsluára þeirra á árunum 2008-2018, að báðum árum meðtöldum“.
Vinnslustöðin telur að frekar ætti að miða við tímabilið frá 2015 „í ljósi þess að 30. júní 2014 komst umboðsmaður Alþingis að þeirri niðurstöðu að sú ákvörðun stjórnvalda að hlutdeildarsetja makrílstofninn frá árinu 2011 hafi ekki [verið] í samræmi við lög.“
Frá þeim tíma hafi sjtórnvöldum átt að vera ljóst að ákvörðun þáverandi ráðherra, Jóns Bjarnasonar, hafi verið í andstöðu við gildandi lög.
„Félagið leyfir sér að ætlast til þess að annað timabilverði valið sem leiðir til sanngjarnrar og málefnalegrar niðurstöðu.“
Óhjákvæmilegt sé að áskilja félaginu allan rétt ef niðurstaðan felur í sér „einhvers konar lögfestingu á reglum sem dómstólar hafa metið ólögmætar.“
Fimm prósent hið minnsta
Eskja hf. á Eskifirði fagnar því í sinni umsögn að stjórnvöld „ætli nú að stíga það skref sem átti að stíga fyrir löngu og hlutdeildarsetja makrílstofnin.“ Hins vegar lýsir Eskja yfir vonbrigðum með að „hlutur útgerða, sem eiga aflareynsluskip og voru frumkvöðlar að þessum veiðum, sé jafn freklega fyrir borð borinn og raunin er ef fyrirliggjandi frumvarpsdrög eiga að verða að lögum.“
Eskja er eitt þeirra fyrirtækja sem hófu tilraunaveiðar á makríl á árinu 2006 og gerir nú út fimm skip, rekur fiskimjölsverksmiðj og nýja háþróaða uppsjávarvinnslu.
Eskja telur eðlilegt að „eitthvert tillit verði tekið til þeirra útgerða sem hófu veiðar á makríl í kjölfar frumkvöðlanna, þó það hafi verið gert eftir árið 2011 í skjóli heimildarlausra ákvarðana stjórnvalda. Að þær útgerðir eigi að njóta nánast að fullu aflareynslu sinnar er hins vegar ótækt.“
Að mati Eskju ætti að ráðstafa að lágmarki fimm prósentum heildarúthlutunar í makríl til frumkvöðlanna, „en rétt væri að miða við hærri hlutdeild.“
Fyrirtækið segir að á meðan reglugerðir Jóns Bjarnasonar þáverandi ráðherra voru í gildi „gátu útgerðarfyrirtæki í blönduðum rekstri uppsjávar og botnsfisks notað botnveiðiskip til að fá viðbótaraflareynslu í makríl. Verði þessi drög að lögum munu þessi fyrirtæki fá hlutdeild sem nam þessum veiðum.“
Það væri að mati Eskju „ósanngjarnt gagnvart minni uppsjávarfyrirtækjum sem höfðu ekki sömu aðstöðu til að verja hlutdeild sína í makríl“.
Eskja segist vonast til þess að sátt náist í þessu máli en „getur hins vegar ekki annað en áskilið sér rétt til að leita réttar síns ef festa á í sessi það óréttlæti og lögleysu sem ákvarðanir Jóns Bjarnasonar fyrrverandi ráðherra ollu.“
Eyrnamerktar handfærabátum
Landssamband smábátaeigenda (LS) gerir einnig athugasemdir frumvarpið, en á nokkuð öðrum nótum. Sambandið gagnrýir að miðað sé við veiðireynslu á tímabilinu 2008 til 2018. Smábátar hafi ekki haft möguleika til að nýta getu sína til makrílveiða fyrr en langt var liðið á þetta tímabil.
LS segir makrílveiðar smábáta hafa hafist með veiðum örfárra báta árið 2011. Síðan hafi ekki komið „í veiðanlegu magni á veiðislóðir smábáta fyrr en árið 2013, en þá höfðu stærri skip haft nánast fullt frelsi til veiða í 6 ár.“
Í ofanálag hafi inngrip stjórnvalda árin 2014 og 2015, ásamt náttúrlegum aðstæðum, orðið til þess að smábátum hafi aldrei verið „gert kleift að ná viðunandi hlutdeild í veiðunum.“
LS leggur því til að „áður en aflamarki er úthlutað á grundvelli aflahlutdeildar skuli dregnar frá heimildir sem eyrnamerktar verða til færaveiða smábáta.“
Þannig vill LS að 5,3 prósent komi í hlut smábáta, auk þess sem bráðabirgðaákvæði VIII, sem féll úr gildi að lokinni síðustu vertíð, verði framlengt og gildi til fiskveiðársins 2022-2023.
LS bendir á að á síðustu makrílvertíð hafi um 60% af makrílheimildum íslenskra skipa verið veiddar utan lögsögunnar „með tilheyrandi sóun á olíu og rýrnun á gæðum til vinnslu. Allur afli smábáta er veiddur nánast upp í fjöru með tilheyrandi orkusparnaði og auknum gæðum til vinnslu.“
LS segir veiðigetu smábáta mikla og „alls ekki óraunhæft að þeir nái að veiða 15.000 tonn af makríl“.
Högg fyrir smærri sveitarfélög
Þá segja Sveitarfélögin Strandabyggð og Kaldrananeshreppur á Ströndum engan vafa á því að þessi niðurstaða yrði mikið högg fyrir „útgerðir í þeim byggðarlögum sem að mestu byggja á smábátaútgerð. Það á bæði við aflamissi með tilheyrandi tapi útgerða og hafna en einnig um alla vinnslu á svæðinu. Því er í raun um tvöfalt högg að ræða.“
Sveitarfélögin tvö segja að smábátaútgerðir þyrftu að taka á sig nærri helmings skerðingu, úr tæplega fjórum prósentum í tvö prósent.
„Smábátaútgerðir hafa lagt í miklar fjárfestingar á búnaði til krókaveiða á makríl, sem er mun vistvænni veiðiskapur,“ segir í umsögn þeirra. „Makríll veiddur af smábátum sem gerðir eru út við Steingrímsfjörð hefur allur verið unninn í heimabyggð.“
Með frumvarpinu sé því verið „að bregða fæti fyrir smærri sveitarfélög á landsbyggðinni og höfnum [við] því þess vegna alfarið.“