Betur fór en á horfðist þegar ísfisktogarinn Ásbjörn RE lenti í því óhappi í fyrrakvöld að fá trollpokann í skúfuna. Skipið var þá statt á Halamiðum og brugðust skipstjórnarmenn hárrétt við með því að kalla strax á aðstoð. Svo vel vildi til að annar ísfisktogari HB Granda, Sturlaugur H. Böðvarsson AK, var einnig að veiðum á Vestfjarðamiðum og varð það úr ráði að Sturlaugur dró Ásbjörn til hafnar á Ísafirði.
,,Við vorum að veiðum á Þverálshorninu og í um tveggja tíma siglingu frá Ásbirni þegar við fréttum af þessu óhappi,“ segir Magnús Kristjánsson, skipstjóri á Sturlaugi í samtali á vef HB Granda . Ásbjörn var tekinn í tog um þrjúleytið í fyrrinótt. Gott veður var á miðunum og voru skipin komin til Ísafjarðar laust fyrir hádegi í gær.
Að sögn Gísla Jónmundssonar, skipaeftirlitsmanns hjá HB Granda, var búið að gera ráðstafanir til að fá kafara á Ísafirði til að losa netið úr skrúfunni og gekk það verk vel. Togarinn fór aftur til veiða síðdegis sama dag.