,,Hugmyndin vaknaði á bryggjurúntinum. Ásbjörn RE var að koma til hafnar og þótt ég hefði séð hann margoft áður í höfn eða að koma eða fara þá atvikaðist það þannig að ég fór um borð og gaf mig á tal við skipverjana. Ég var á sínum tíma á togaranum Bergvík frá Keflavík, sem var mjög svipaður Ásbirni en þó heldur styttri. Mér leið eins og að tíminn hefði staðið í stað og ég væri aftur orðinn 17 eða 18 ára. Mér kom þá í hug að það væri ekki svo vitlaust að gera heimildarmynd um þennan merka höfðingja.“
Frumsýnd í Hörpu
Þetta segir Björgvin Helgi Möller Pálsson, kvikmyndagerðarmaður, en hann hefur varið sl. ári í gerð myndar um ísfisktogarann Ásbjörn sem senn hverfur úr rekstri hjá HB Granda. Verður myndin frumsýnd í Hörpu um Sjómannadagshelgina og er því liður í dagskránni á Hátíð hafsins í Reykjavík. Myndin verður sýnd í Kaldalóni í Hörpu kl. 14, 15 og 16 á laugardag og á sunnudeginum verða sýningarnar fjórar talsins, kl. 12, 13, 14 og 15. Aðgangur er ókeypis.
Að sögn Björgvins Helga hefur hann alltaf haft brennandi áhuga á öllu sem tengist sjávarútvegi og þá ekki síst gömlum skipum. Áhuginn er ekki hvað minnstur á togurunum sem smíðaðir voru í Flekkufirði í Noregi fyrir íslenskar útgerðir en Ásbjörn var meðal þeirra.
Aðaltöffarinn
,,Ætli það megi ekki rekja þennan áhuga allt aftur til þess tíma að ég var smástrákur. Pabbi var kaupfélagsstjóri á Þingeyri og fór til Noregs til að ganga frá kaupum á togaranum Framnesi ÍS. Ég man að maður hafði ekki séð annað eins glæsifley þegar Framnesið kom fyrst til Þingeyrar. Framnesið var einn af fyrstu norsku togurunum sem hingað komu en Bergvík, sem áður hét Júlíus Geirmundsson ÍS, var sá fyrsti. Í mínum huga hefur Ásbjörn alltaf verið aðaltöffarinn í því sem nefna má miðbæjarklíkuna í Reykjavík. Ásbjörn hefur jafnan fiskað jafn mikið eða meira en miklu stærri skip og það felst ekki síst í því að í áhöfninni eru úrvalsmenn og óvenjulega samhentur mannskapur.“
Sjá nánar á vef HB Granda.