Arthur Bogason var kosinn formaður Landssambands smábátaeigenda (LS) með 73% atkvæða á framhaldsaðalfundi félagsins í morgun.

Fráfarandi formaður, Þorlákur Helgason, gaf ekki kost á sér aftur. Mótframbjóðandi var einn, Gunnar Ingiberg Guðmundsson, og hlaut hann 23%. Jafnframt var kosin ný stjórn og lokið við að afgreiða tillögur fundarins.

Arthur var formaður LS frá stofnun til ársins 2013, en þegar hann bauð sig fram nú á nýjan leik eftir sjö ára hlé sagði hann áhuga sinn á réttindabaráttu smábátaeigenda aldrei hafa yfirgefið sig.

Á fundinum í morgun sagðist hann hrærður að sjá hve mikils traust hann nýtur enn.