Dagana 23.‒27. september verður haldinn hér á landi ársfundur Alþjóðahafrannsóknaráðsins (International Council for the Exploration of the Sea, ICES). Hafrannsóknastofnun er íslenskur gestgjafi ráðstefnunnar, að því er fram kemur á vef stofnunarinnar.
Alþjóðahafrannsóknaráðið samanstendur af 20 þjóðum við Norður-Atlantshaf, Norðursjó og í Eystrasalti. Ráðið var stofnað árið 1902 og er það talið með elstu starfandi fjölþjóðasamtökum í heiminum. Ráðið stuðlar að og samræmir hafrannsóknir á áður nefndum hafsvæðum. Starfsemin byggir á þátttöku um 4000 vísindamanna frá um 300 stofnunum. Fulltrúar Íslands í stjórn ráðsins eru þeir Jóhann Sigurjónsson og Ólafur S. Ástþórsson.
Höfuðstöðvar Alþjóðahafrannsóknaráðsins eru í Kaupmannahöfn. Ráðið veitir stjórnvöldum og alþjóðlegum stofnunum ráðgjöf varðandi stefnumótun og stjórnun sem tengist áhrifum mannsins á vistkerfi sjávar og sjálfbæra nýtingu á lifandi auðlindum sjávar, einkum fiskistofnum. Á vegum ráðsins starfa um 120 sérhæfðar vinnunefndir, sem m.a. fjalla árlega um ástand fiskistofna við Ísland.
Ársfundinn sækja um 700 vísindamenn og þar verður í meira en 450 erindum og á veggspjöldum fjallað um 20 efnisflokka á sviði haf- og fiskirannsókna, en jafnframt verða flutt nokkur framsögu- og yfirlitserindi. Af efnisflokkum sem starfsmenn Hafrannsóknastofnunar koma sérstaklega að má nefna: Samkeppni og samspil uppsjávarfiska í Norður Atlantshafi með sérstakri áherslu á síld, makríl og kolmunna, stefnumótun varðandi sjálfbærar nýtingarreglur, eðlis- og efnafræði súrnunar sjávar, tækninýjungar til rannsókna á útbreiðslu fiska og atferli, sjófræði og straumakerfi Norðurhafa. Þá verður einnig fjallað um viðbrögð vistkerfa sjávar við veðurfarsbreytingum og skipulag strandsvæða.

Sjá nánar á vef Hafrannsóknastofnunar .