Afli íslenskra skipa árið 2019 var samkvæmt bráðabirgðatölum Fiskistofu rúm 1.048 þúsund tonn. Það er nærri 211.000 tonnum minni afli en landað var árið 2018.

Í frétt Fiskistofu segir að samdráttinn má rekja til minni uppsjávarafla, enda veiddist engin loðna á árinu auk þess sem afli kolmunna og makríls dróst saman.

Alls nam uppsjávarafli tæpum 535.000 tonnum árið 2019 samanborið við tæp 739.000 tonn 2018. Botnfiskafli stóð í stað milli ára, en af einstaka tegundum má nefna að ýsuafli jókst um 19%. Flatfiskafli nam rúmum 22.000 tonnum árið 2019 og dróst saman um 18% samanborið við árið 2018.

Afli skel- og krabbadýra var rúm 10.000 tonn á síðasta ári og dróst saman um 19% frá fyrra ári.

Í desember 2019 var fiskaflinn rúm 63.000 tonn sem er 12% aukning miðað við desember 2018. Botnfiskafli var tæp 29.000 tonn og jókst um 6%. Uppsjávarafli nam 33,600 tonnum sem er 19% aukning samanborið við desember 2018. Aflinn í desember, metinn á föstu verði, var 3% meiri en í desember 2018.