Hafrannsóknastofnunin tekur nú í fyrsta sinn þátt í rannsóknum á hrygningu makríls. Rannsóknaskipið Árni Friðriksson lét úr höfn nú í vikunni þessara erinda og verður aðallega að störfum í kringum Færeyjar.

Sveinn Sveinbjörnsson fiskifræðingur tjáði Fiskifréttum að þetta væri hluti af mjög viðamikilli rannsókn sem fram færi á hrygningu makríls í NA-Atlantshafi á þriggja ára fresti. Rannsóknin, sem rannsóknaskip margra þjóða taka þátt í, nær yfir langt tímabil og stórt hafsvæði. Hrygningin hefst í byrjun janúar suður í Biskaíflóa en færist svo vestur fyrir Bretlandseyjar og lýkur norður við Færeyjar.

Rannsóknin fer þannig fram að eggjum makrílsins er safnað með átuháfum í þéttu stöðvaneti á útbreiðsusvæði fisksins. Siðan er fundinn út fjöldi eggja á hvern rúmmetra á viðkomandi hafsvæði. Jafnframt eru tekin sýni á slóðinni til þess að komast að aldurs- og lengdarsamsetningu fisksins en eggjafjöldi í hverri hrygnu tengist því.