Laxeldisfyrirtækið Arnarlax á Bíldudal hefur fest kaup á vinnslubúnaði frá 3x Technology ehf. á Ísafirði sem m.a. undirkælir afurðir fyrirtækisins. Búnaðurinn lengir líftíma afurða og tryggir betri og jafnari vinnslu og hefur sá árangur verið staðfestur með rannsóknum Matís.

Arnarlax ehf., sem er í eigu öflugra fyrirtækja í Noregi og Danmörku auk heimamanna, hefur á undanförnum árum byggt upp laxeldi í Arnarfirði og mun í vetur setja upp laxavinnslu á Bíldudal.

Vinnslubúnaðurinn samanstendur af blæðingartanki annars vegar sem tryggir fullkomna og jafna blæðingu og kælitanki hins vegar sem ofurkælir hratt og vel. Búnaðurinn þessi er um margt líkur þeim búnaði sem framleiddur var og  settur upp um borð í Málmey SK-1 snemma á þessu ári og hefur reynst vel. Hann hefur síðan verið aðlagaður sérstaklega að þörfum í laxavinnslu. Matís hefur að undanförnu unnið að rannsóknum á áhrifum undirkælingar á laxi.

Albert Högnason þróunarstjóri 3X Technology segir samninginn við Arnarlax marka ákveðin tímamót. „Það voru uppi ákveðnar efasemdir um ofurkælingu og íslausa geymslu á fiski og sérstaklega hvort þessi aðferð myndi tryggja aukin gæði í vinnslu og aukið afurðaverðmæti. Rannsóknir Matís hafa staðfest allt sem stefnt var að í upphafi með þessari aðferð. Það er því ánægjulegt skref og mikil viðurkenning þegar sala á fyrsta heildarkerfi í blæðingu og kælingu á laxi er staðreynd.