Árleg ferð Hampiðjunnar Ísland í tilraunatankinn í Hirtshals í Danmörku verður farin dagana 26.-30. nóvember næstkomandi. Tankferðirnar hafa notið mikilla vinsælda en í þeim eru veiðarfæri, bæði botn- og flottroll, sýnd og prófuð og fá þátttakendur einstakt tækifæri til að auka þekkingu sína og kynnast því hvernig mismunandi veiðarfæri haga sér í sjónum við raunverulegar aðstæður.

Þar gefst líka kostur á að koma með ábendingar og athugasemdir um veiðarfærin sem nýtast í áframhaldandi þróun þeirra. Meginhluti dagskrárinnar fer fram í tilraunatankinum, en einnig verða fræðandi kynningar og heimsóknir til áhugaverðra fyrirtækja sem tengjast sjávarútvegi.

Árlegur viðburður í áratugi

Tankferðirnar hafa verið árlegur viðburður í áratugi. Þar hittast skipstjórar, stýrimenn, útgerðarstjórar, veiðarfæratæknar og aðrir sérfræðingar úr sjávarútvegi víða að úr heiminum. Á síðasta ári sóttu yfir 70 manns viðburðinn, frá Íslandi, Færeyjum, Danmörku, Noregi, Írlandi og Nýja Sjálandi.

Ferðir Hampiðjunnar í tilraunatankinn eru þekktar fyrir fjölbreytta dagskrá og tækifæri til tengslamyndunar en þær bjóða upp á fræðslu á daginn og góðan félagsskap á kvöldin þar sem tengsl eru efld og ný mynduð. Að lokinni dvöl í Hirtshals munu þátttakendur halda til Kaupmannahafnar sem verður komin í jólabúning. Möguleiki er að framlengja dvölina yfir helgi og skoða borgina með mökum sem myndu þá koma til Kaupmannahafnar á föstudeginum.