Argentínska strandgæslan sökkti kínversku skipi eftir að það hafði verið staðið að ólöglegum veiðum í fiskveiðilögsögu Argentínu og flúið af vettvangi. Frá þessu er skýrt á vefnum SeafoooSource. Þar kemur jafnframt fram að atvikið hafi verið tekið upp á myndband sem nú hefur verið sett á YouTube og vakið mikla athygli.
Samkvæmt upplýsingum frá argentínsku strandgæslunni var kínverska skipið staðið að ólöglegum veiðum undan strönd Puerto Madryn 14. mars síðastliðinn. Strandgæslan reyndi að hafa samband við skipið og gerði tilraun til að senda menn um borð. Kínverjarnir hundsuðu öll fyrirmæli og sigldu yfir á alþjóðlegt hafsvæði.
Strandgæslan skaut þá aðvörunarskotum að skipinu sem sneri við og reyndi ítrekað að sigla á strandgæsluskipið. Skothríðinni var haldið áfram sem leiddi til þess að gat kom á kínverska skipið og það sökk skömmu síðar. Áhöfnin yfirgaf skipið og var fjórum bjargað um borð í strandgæsluskipið en aðrir í áhöfn, 28 manns, komust um borð í annað kínverskt skip sem komið hafði á vettvang.